Björgunarsveitin í skítamálum

Björgunarsveitarmenn ferjuðu skítinn á þurrt.
Björgunarsveitarmenn ferjuðu skítinn á þurrt.

Björgunarsveitin Vopni á Vopnafirði tók að sér harla óvenjulega björgunaraðgerð í dag. Um var að ræða aðstoð við bónda sem vildi bjarga gæðaskít frá náttúruöflunum.

Í tilkynningu um málið á Facebooksíðu Vopna segir að bóndi einn nærri Hofsá hafi þurft aðstoð við að bjarga skít sem var í hættu á að verða ánni að bráð en hún hefur flætt yfir bakka sína í þeim miklu vatnavöxtum sem hafa verið að undanförnu. Segja björgunarsveitarmenn að bóndinn hafi útskýrt málið sem svo að þarna væri á ferð „eðal“ kindatað sem notast ætti við til að reykja hangikjöt í haust og því brugðust þeir vel við bóninni.

Nokkrir félagar í Vopna komu á vettvang með bát. Settu þeir taðið í poka og ferjuðu á land þar sem bóndinn tók við því eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Þá segir að óvenju miklir vatnavextir séu í Vopnfirsku ánum núna en mikill hiti samferða gríðarmiklum snjó eru orök þeirra. Jafnframt hafi æðarbændur orðið fyrir miklu tjóni en flest hreiður hafa flotið upp og sum tvisvar eftir að bændur reyndu að færa til hreiður í gær. Jókst enn meira í ánni í dag og lentu hreiðrin því sum aftur undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert