Stjórnir Norðurorku hf. og Orkuveitu Húsavíkur hafa samþykkt að nýta forkaupsrétt sinn og kaupa Hrafnabjargavirkjun hf af Orkuveitu Reykjavíkur. Þegar hafa verið lögð drög að kaupsamningum milli aðila.
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 5. apríl s.l. að selja hlut sinn í Hrafnabjargavirkjun hf. og í samræmi við samþykktir félagsins að bjóða öðrum hluthöfum að neita forkaupsréttar síns.
Sem stendur eru virkjunarkostir á vatnasvæði Skjálfandafljóts í biðflokki samkvæmt rammaáætlun þar sem ekki liggja fyrir nægileg gögn og rannsóknir á svæðinu.
Markmiðið með lögum um rammaáætlun er að nýting landsvæða þar sem virkjunarkosti er að finna, byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tillit er tekið til jafnt umhverfissjónarmiða sem hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta.
Með frekari rannsóknarvinnu og gagnasöfnun er ætlunin að kanna mismunandi virkjunarkosti, útfærslur þeirra og möguleg umhverfisáhrif, segir í tilkynningu frá Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur.
Er það niðurstaða stjórna Orkuveitu Húsavíkur ohf. og Norðurorku hf. að mikilvægt sé að frekari rannsóknum á svæðinu verði haldið áfram. Sömu sjónarmið hafa komið fram hjá sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.
Næstu skref í málinu er að Hrafnabjargavirkjun hf. og Landsvirkjun sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi á svæðinu.