Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í gær með fjórtán atkvæðum gegn einu að veita Samhjálp tíu milljón króna styrk. Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, greiddi atkvæði gegn tillögunni og sagði ljóst að verið væri að bjarga Samhjálp frá gjaldþroti eftir langvarandi fjárhagsvanda.
Sóley lagði fram bókun eftir að hún greiddi atkvæði á móti tillögunni. Í henni segir: „Borgarfulltrúi Vinstri grænna er mótfallinn því að styrkja Samhjálp um 10 milljónir króna til viðbótar við stóraukin framlög til samtakanna undanfarin ár. Styrkumsóknin er afar óljós og rökstuðningur meirihlutans sömuleiðis, en ljóst er af umsögnum fjármálaskrifstofu og velferðarsviðs að verið er að bjarga samtökunum frá gjaldþroti eftir langvarandi fjárhagsvanda.“
Þá sagði Sóley að við slíkar aðstæður hefði verið skynsamlegra að taka yfir rekstur þjónustunnar sem nú er í höndum Samhjálpar en hún ætti, að mati Vinstri grænna, að vera rekin af borginni í öllum tilfellum.