Vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, írskt skúffufyrirtæki sem er stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner, eignaðist kröfur á hendur þrotabúi Glitnis fyrir um 100 milljarða króna í mars.
Sjóðurinn er stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis – samtals nema almennar kröfur hans nú um 240 milljörðum – og á hann um 10% allra samþykktra krafna í búið.
Þetta má sjá í kröfuhafalista Glitnis sem var birtur 29. maí sl. og Morgunblaðið hefur undir höndum. Í byrjun mars á þessu ári átti sjóðurinn kröfur á hendur Glitni fyrir um 140 milljarða og hefur Burlington því næstum tvöfaldað kröfueign sína á þrotabúið. Miðað við 25% heimtur er markaðsvirði þeirra 60 milljarðar.
Í umfjöllun um þetta mál í viðskiptablaði Morgunblaðsins, sem út kom í morgun, segir, að það veki óneitanlega athygli að sjóðurinn sé að auka stöðu sína í Glitni um jafnmikla fjárhæð – ekki síst þegar haft er í huga að skammt er síðan Burlington seldi 56 milljarða samþykktar kröfur á Glitni.