Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fundaði í morgun með Alequ Hammond, formanni landsstjórnar Grænlands, en hún er hér á landi í stuttri vinnuheimsókn. Forsætisráðherra gerði meðal annars grein fyrir aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á vest-norræna samvinnu og nýtingu þeirra tækifæra sem felast í breyttu umhverfi á norðurslóðum.
Þau ræddu um tvíhliða samstarf Íslands og Grænlands og þær nýju áherslur sem ríkisstjórn hvors um sig hefðu lagt þegar þau tóku við embætti. Þá var rætt um mikilvægi samstarfs Íslands og Grænlands sem færi vaxandi, sérstaklega með hugmyndum um aukna vinnslu auðlinda úr jörðu og atvinnu- og þjónustumöguleika sem því tengjast.
Ísland mun opna aðalræðisskrifstofu á Grænlandi síðar á árinu og þakkaði forsætisráðherra sérstaklega fyrir það góða samstarf sem verið hefur við Grænland við undirbúning þess, en um verður að ræða fyrstu erlendu sendiskrifstofuna á Grænlandi