Jórunn Káradóttir, 24 ára arkitektanemi í London, lenti í óskemmtilegri reynslu í gærkvöldi þegar hún fór ásamt vinkonu sinni í verslunina Selfridges á Oxford stræti. Búrkuklæddir karlmenn ruddust inn í búðina og frömdu vopnað rán. Jórunni var afar brugðið en slasaðist ekki í ráninu.
„Ég var að ganga inn í verslunina ásamt vinkonu minni þegar einhver sem gekk á eftir okkur ýtti við mér til að komast sjálfur inn. Um var að ræða búrkuklæddan einstakling. Ekki er óalgengt að konur klæðist búrkum í London en ég sá að þetta var karlmaður og það þótti mér strax sérkennilegt,“ segir Jórunn.
Hún sá þá annan karlmann koma inn í verslunina á öðrum stað en hann hélt á sleggju, og var einnig klæddur búrku. Að minnsta kosti tveir til viðbótar komu inn í verslunina.
„Viðskiptavinir fylltust skelfingu og allt í einu ríkti í versluninni mikil ringulreið. Fullt af fólki var inni og reyndu allir að hlaupa út. Ekki hefur liðið nema örfáar mínútur þar til lögreglan var komin á staðinn.“
Tveir menn náðust og voru handteknir á staðnum en hinna er leitað. Jórunn segir að mennirnir hafi hlaupið að skartgripadeild verslunarinnar, brotið þar glerskápa og -borð og tekið skartgripina. Hún veit ekki hvort einhverjir ræningjanna hafi komist burtu með feng sinn.
Hún segist ekki hafa óttast um líf sitt en vissulega hafi þetta verið afar óskemmtileg lífsreynsla. „Þegar við litum inn í búðina voru glerbrot úti um allt og barnavagn á hvolfi og löggur úti um allt. Það var allt í klessu þarna.“