„Við erum að selja húsið okkar í Vestmannaeyjum. Tilfinningarnar sem bærast innra með mér eru blendnar. Léttir að þetta hafi gengið hratt og vel fyrir sig,“ segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra á facebooksíðu sinni í dag en hún hyggst að sögn setjast að í Hafnarfirði.
Eygló var áður þingmaður Suðurkjördæmis en færði sig yfir í Suðvesturkjördæmi fyrir kosningarnar í vor og er oddviti Framsóknarflokksins í kjördæminu. Hún segir að tregi fylgi því „að kveðja gamla húsið okkar í Eyjum uppfullt af minningum“. Það sé að sama skapi skrítið að verða í fyrsta sinn í tæp 15 ár ekki viðskiptavinur Íbúðalánasjóðs. Hún og fjölskyldan ætli út á leigumarkaðinn og auglýsir hún eftir ábendingum um góðar leiguíbúðir í Hafnarfirði. Hún bætir síðan við að fjölga þurfi leiguíbúðum.