Samtökin ‘78 afhentu innanríkisráðherra í dag áskorun um að endurskoðuð verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins um synjun efnislegrar meðferðar vegna umsóknar Martins, hælisleitanda frá Nígeríu, um hæli á Íslandi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra upplýsti er hún tók við áskoruninni að ráðuneytið hefði orðið við beiðni Martins um frestun á flutningi hans úr landi þar til niðurstaða í dómsmáli annars hælisleitanda frá Nígeríu liggur fyrir. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.
„Hanna Birna þakkaði Samtökunum '78 baráttu þeirra fyrir aðstæðum samkynhneigðra og kvaðst taka við þessari áskorun um leið og hún upplýsti að lögfræðingur Martins hefði verið upplýstur um að flutningi Martins úr landi yrði frestað þar til niðurstaða lægi fyrir í dómsmáli annars manns frá Nígeríu,“ segir í tilkynningu.