Fallið frá 14% gistináttaskatti

Ferðamenn í Reykjavík.
Ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram lagafrumvarp á Alþingi um að fyrirhuguð hækkun á virðisaukaskatti á hótelgistingu úr 7% í 14% komi ekki til framkvæmda 1. september eins og gildandi lög kveða á um.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að ætla megi að lægri virðisaukaskattur á gistiþjónustu hafi áhrif á eftirspurn og muni þannig gagnast ferðaþjónustunni við sitt markaðsstarf. Við mat á því hvernig skattleggja eigi greinina verði einnig að horfa til þess að meiri hluti gistinátta sé enn sem komið er að sumarlagi sem óhjákvæmilega hafi ákveðið óhagræði í för með sér fyrir rekstraraðila.

Verði frumvarpið að lögum lækka tekjur ríkissjóðs að óbreyttu um 535 milljónir króna á þessu ári miðað við áætlun fjárlaga fyrir árið 2013 og um 1,5 milljarða á næsta ári. Í greinargerð með frumvarpinu segir, að á móti því tekjutapi vegi, ef að líkum lætur, aukin eftirspurn og viðbótartekjur a.m.k. til lengri tíma litið.

Þrjú önnur stjórnarfrumvörp voru lögð fram á Alþingi síðdegis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert