Stöðug aukning hefur verið í framboði á sveitagistingu síðustu ár og nú eru um fimm þúsund gistirými innan vébanda Ferðaþjónustu bænda. Í þenslunni í ferðaþjónustunni eru margir sem vilja fá sneið af kökunni án þess að uppfylla kröfur sem gerðar eru og hefur Ferðaþjónusta bænda því hafnað mörgum umsóknum.
Það breytir því þó ekki að margir þessara aðila hefja starfsemi án leyfa og bjóða þjónustu sína á netinu. Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, segir að mörgum svíði að sjá þessa starfsemi, sem oft sé svört, blómstra við hliðina á þeim sem eru með allt sitt uppi á borðum.
Nú eru 182 aðilar innan raða Ferðaþjónustu bænda og hefur fjölgað um 15 frá síðasta ári. Sævar áætlar að um þriðjungur af gistirými á landsbyggðinni sé innan Ferðaþjónustu bænda. Viðskiptavinir koma alls staðar að úr heiminum.
Í þjónustunni kennir ýmissa grasa og má nefna heimagistingu á sveitabýlum víða um land, sumarhús, gistiheimili og sveitahótel. Sævar segir að sumarið líti mjög vel út, mikið hafi verið bókað og bjartsýni sé ríkjandi. Eðlilega sé fyrst bókað í kringum vinsæla ferðamannastaði eins og á Suðurlandi og við Mývatn, en allir njóti góðs af aukningunni. Bylgjan dreifist um landið og staðir sem til skamms tíma hafi ekki verið með mikla nýtingu komi nú sterkir inn.
Sævar segir að nokkrar ástæður geti legið að baki synjun um að komast inn í net Ferðaþjónustu bænda. „Í fyrsta lagi þurfa menn að hafa gild rekstrarleyfi, sem eru ekki alltaf til staðar hjá þeim sem eru að hefja rekstur. Í öðru lagi þurfa þeir að passa inn í okkar ímynd, sem er rekstur og starfsemi á landsbyggðinni. Þannig geta til dæmis gistiheimili, sem eru inni í þéttbýliskjörnum bæja, ekki fengið aðgang að okkar kerfi. Í þriðja lagi eru það gæðamálin, en dæmi eru um að þeir sem vilja koma inn eru langt undir okkar stöðlum og markmiðum,“ segir Sævar.
Hann bætir því við að í um tíu ár hafi markvisst verið unnið að umhverfismálum. Til að byrja með hafi verið talað fyrir daufum eyrum, en menn séu farnir að hugsa öðruvísi og þessi nálgun veki nú áhuga meðal viðskiptavina.
„Vissulega verðum við vör við gullgrafarastemningu í ferðaþjónustunni,“ segir Sævar aðspurður. „Margir tjalda öllu sem til er og vilja komast inn í kerfið okkar. Við fáum mikið af umsóknum, en þegar við förum í gegnum þær með okkar gæðastjóra kemur ýmislegt í ljós. Ákveðinn hluti er mjög flottur og þar er fólk tilbúið í þessa þjónustu, en svo eru þeir sem ætla sér bara af stað og þeir komast áfram þó að þeir uppfylli alls ekki lágmarkskröfur og leyfin hjá þeim eru seinni tíma mál.“
„Við hliðina á okkur sjáum við alls konar svarta starfsemi án aðhalds og eftirlits. Við urðum vör við þessa tilhneigingu fyrir nokkrum árum, en núna hefur þetta margfaldast með þróun tækninnar og hinir ýmsu aðilar eru farnir að finna sér leið til að komast inn á markaðinn í gegnum erlendar bókunarsíður. Þetta vekur spurningar hjá hinum um af hverju þeir eigi að bera kostnað af gæðakerfum og alls konar leyfum án alls aðhalds og eftirlits,“ segir Sævar.