„Það að hlutfall ungmenna sem ákærð eru fyrir búðarþjófnað hafi hækkað þetta mikið frá árinu 2007 vekur athygli. Væntanlega er erfiðara fyrir ungmenni að fylgja unglingamenningunni eftir, út frá lífsstíl og ímynd, þegar efnahagur fólks breytist.“
Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, félagsfræðingur og sérfræðingur í afbrotafræðum við Háskóla Íslands, í umfjöllun um búðarhnupl í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem út kom í morgun.
Samkvæmt gögnum frá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu berast um 70 tilkynningar á mánuði um hnupl í verslunum. Árið 2007 voru 15% kærðra búðarhnuplara yngri en 20 ára en í fyrra átti sá aldurshópur um 35% af kærunum.
Þá fer íslenskum þjófum fjölgandi. Árið 2007 voru þeir um 65% kærðra í þessum málum en voru í fyrra orðnir um 76% gerenda.