Birt hafa verið skýrsludrög Laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins, um hvenær réttlætanlegt sé að láta stjórnmálamenn sæta refsiábyrgð, og kemur þar m.a. fram skoðun nefndarinnar á málatilbúnaði gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.
Einnig er fjallað um mál Júlíu Tímosjenko, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, í skýrsludrögum nefndarinnar.
Í skýrsludrögunum Laga- og mannréttindanefndar Evrópuráðsþingsins kemur fram gagnrýni á að fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hafi einn verið ákærður fyrir brot í starfi á meðan aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sluppu við ákæru.
Telur nefndin að stjórnmálamenn eigi einungis að sæta refsiábyrgðar fyrir dómstólum í mjög alvarlegum tilfellum t.a.m. ef að stjórnmálamaður hefur orðið uppvís að spillingu eða fjárdrætti í starfi.
Í öðrum tilvikum ættu stjórnmálamenn eingöngu að mæta dómi kjósenda sinna í almennum kosningum.
Í skýrsludrögunum kemur einnig fram að í landsdómsmálinu hafi Alþingi mistekist að aðskilja dómsvald og stjórnmál. Er því niðurstaðan í máli fyrrverandi forsætisráðherra ekki í samræmi við sýn nefndarinnar á refsiábyrgð stjórnmálamanna.
Þuríður Backman, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, er fulltrúi Íslands í nefndinni. Hún er ekki sammála niðurstöðum og skilaði því ein séráliti í málinu.