Hannes Íslandsmeistari í tólfta sinn

Björn og Hannes.
Björn og Hannes.

Hannes Hlífar Stefánsson varð í gær Íslandsmeistari í tólfta sinn eftir sigur á Birni Þorfinnssyni í einvígi um titilinn. Þeir félagarnir komu jafnir í mark með 8 vinninga í 10 skákum eftir sviptingasama í lokaumferð þar sem Hannes tapaði fyrir Héðni Steingrímssyni en Björn vann bróður sinn Braga.

Teflt var við einstakar aðstæður á 20. hæðinni í Turninum í Borgartúni.

Í gærkveldi tefldu þeir svo tveggja skáka einvígi með atskákfyrirkomulagi. Þar hafði Hannes betur 1,5-0,5 í afar spennandi og skemmtilegu einvígi.

Þetta er tólfti Íslandsmeistaratitill Hannes sem er sigursælastur allra í 100 ára sögu mótsins. Hannes hefur unnið í 12 af síðustu 13 skiptum þegar hann hefur tekið þátt.  Með árangri sínum krækti Björn sér í sinn fyrsta stórmeistaraáfanga.

Hjörvar Steinn Grétarsson og Héðinn Steingrímsson urðu jafnir í 3.-4. sæti. Hjörvar fékk bronsið eftir stigaútreikning.

Lenka Ptácníková varð Íslandsmeistari kvenna í fimmta sinn og hélt titlinum. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Elsa María Kristínardóttir urðu í 2.-3. sæti. Jóhann fékk silfrið og Elsa bronsið eftir stigaútreikning.

Björn og hinn ungi og efnilegi Vignir Vatnar Stefánsson fengu svo sérstök verðlaun fyrir bestan árangur í samanburði við eigin skákstig. Þess má geta að Vignir Vatnar er barnabarnabarn fyrsta Íslandsmeistarans í skák, Péturs Zóphaníussonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert