„Samningum af hálfu ESB verður aðeins lokið við íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn sem vill ganga í ESB. Ríkisstjórnin verður að skrifa upp á samninginn fyrir sitt leyti og mæla með samþykkt hans. Það er hluti af því að ljúka samningnum. Þetta hefur verið ljóst frá byrjun.“
Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á heimasíðu sinni í dag. Hann tekur þar undir með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra, um að umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið flokkist sem fullveldismál og um slík mál hafi forseti lýðveldisins fullan rétt til þess að tjá skoðun sína „enda var hann kosinn út á hana sem forseti.“
„Ég var ekki hrifinn af útrásardekri forsetans á sínum tíma. En framlag hans síðustu misseri í einörðum málflutningi fyrir fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti Íslendinga hefur skipt miklu máli. Ég tek undir með forseta Íslands um að umsóknina að ESB á að afturkalla strax og refjalaust,“ segir Jón ennfremur.