Landvernd lýsir þungum áhyggjum af stöðu jarðhitasvæðisins í Henglinum eftir fréttir af því að núverandi vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar standi ekki undir væntingum. Landvernd hefur ítrekað varað við ágengri nýtingu jarðvarmaauðlindarinnar, samkvæmt tilkynningu.
„Afar erfitt er að segja fyrir um líftíma og framleiðslugetu jarðvarmavirkjana þegar ákvörðun um virkjun er tekin enda auðlindin hulin og margir óvissuþættir um viðbrögð við vinnsluálagi. Algengt virðist að ganga út frá þeirri forsendu að nýting miði við að varmaorka jarðhitasvæða endist í 50 ár. Ef uppfylla á skilyrði um sjálfbærni jarðvarmavirkjana væri eðlilegt að miða við mun lengri endingartíma og leggja áherslu á fjölnýtingu orkulindarinnar en ekki raforkuframleiðslu eingöngu. Ljóst er að yfirleitt er nýting jarðvarmans á háhitasvæðum fjarri því að standast skilyrði um sjálfbæra þróun þegar vökvaupptaka úr jarðhitageymunum er mikil og stöðug og endingin miðuð við aðeins um hálfa öld.
Landvernd telur að hætta eigi rafmagnsframleiðslu á jarðhitasvæðum til álvera og annarrar orkufrekrar stóriðju þar sem orkuþörf slíkra iðjuvera er gríðarmikil og kallar því bæði á mikla nýtingu og hraða uppbyggingu virkjana. Slík nýting samræmist ekki eðli jarðhitasvæðanna og þekkingu okkar á nýtingu þeirra.
Þá telur Landvernd mikilvægt að í vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða verði sérstaklega litið til sjálfbærrar nýtingar jarðvarmans og áhrifa mengunar, m.a. brennisteinsmengunar á heilsu fólks og vandamála við förgun affallsvatns frá virkjunum. Allar háhitavirkjanir á Íslandi eru ótímabærar meðan fullnægjandi lausnir á þessum þáttum eru ekki fyrir hendi eða þykja of dýrar,“ segir í tilkynningu frá Landvernd.