Skúli Hansen
Þingmenn Bjartrar framtíðar ætla að leggja til á sumarþinginu þingsályktunartillögu þess efnis að farið verði í þjóðaratkvæði innan árs um það hvort halda skuli aðildarviðræðunum við Evrópusambandið áfram. Þetta kom fram í ræðu Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar, á Alþingi í kvöld.
„Nú á að gera hlé en það er óljóst hvað á að gera svo. Við í Bjartri framtíð viljum mjög eindregið ljúka þessum viðræðum og leggja fullbúið plagg til samþykktar eða synjunar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Guðmundur og bætti við: „Við viljum höggva á þennan hnút sem er núna kominn einhvern veginn upp í þessum málum. Við ætlum því að leggja til, núna á sumarþingi, með þingsályktunartillögu að farið verði í þjóðaratkvæði innan árs um það hvort halda skuli viðræðunum áfram.“
Þá sagði Guðmundur að ein ástæða þess að Ísland væri ennþá í þessum viðræðum væri sú að margir teldu að þjóðin myndi njóta góðs af því að taka upp Evru sem gjaldmiðil, þ.e. að taka upp stöðugri gjaldmiðil.