Fékk 10 í einkunn á sveinsprófi

Dýri Bjarnar Hreiðarsson í Eyjafjarðarsveit náði þeim einstaka árangri í sveinsprófi í húsasmíði, sem fram fór í Verkmenntaskólanum á Akureyri í byrjun júní, að fá 10 í einkunn fyrir verklega þáttinn á prófinu. Dýri Bjarnar var sá eini á landinu sem hlaut þessa einkunn, en samtals þreyttu á fimmta tug sveinspróf í húsasmíði, annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Akureyri.

Þetta kemur fram í frétt á vef VMA.

Þar kemur fram að afar sjaldgæft sé að nemandi fái fullt hús fyrir sveinsstykkið sitt, sem að þessu sinni var stigi með handriði, og því er Dýri Bjarnar að vonum hæstánægður með niðurstöðuna.

„Jú, ætli maður verði ekki að segja að þetta teljist frekar góð niðurstaða,“ er haft eftir Dýra í fréttinni. „Við fengum 20 tíma til þess að smíða stigann, sem deildust niður á þrjá prófdaga, ásamt bóklegu prófi. Við fengum í hendur grunnteikningu og síðan þurftum við að útfæra teikninguna betur og fara síðan í smíðina sjálfa. Þetta getur vitaskuld verið afar stressandi, en lykilatriðið er að halda ró sinni og vanda til verka. Það skiptir miklu máli að nýta þessa tuttugu tíma rétt, t.d. að eyða ekki of miklum tíma í teikningarnar. Eina rafmagnsverkfærið sem við fáum í prófið er handfræsari, en síðan er okkur úthlutað öllum öðrum handverkfærum. Ég ákvað að leggja kapp á að vera tímanlega búinn að setja stigann saman og gefa mér þannig góðan tíma í pússningu og annan frágang, enda er horft töluvert á frágang,“ segir Dýri Bjarnar.

Lauk loks sveinsprófinu

Áratugur er liðinn síðan Dýri Bjarnar lauk húsasmíðahlutanum í VMA, en sveinsprófið átti hann hins vegar alltaf eftir og ýmislegt hefur í gegnum tíðina komið í veg fyrir að hann gæti lokið prófinu.

„Sveinsprófið er að sjálfsögðu mikilvægur þáttur í ljúka húsasmíðinni því að í raun getur maður ekki titlað sig húsasmið fyrr en þessu prófi hefur verið lokið,“ segir Dýri Bjarnar, sem hefur aflað sér mikillar reynslu í smíðinni á síðustu árum. Í átta ár var hann í leikmyndasmíði hjá Leikfélagi Akureyrar og undanfarið hefur hann verið í ýmsum smíðaverkefnum ásamt bræðrum sínum, Hreiðari Bjarna og Sindra Birni, undir merkjum fyrirtækisins B. Hreiðarsson.

„Já, það virðist vera að lifna verulega yfir þessu aftur og í sumar verður í það minnsta mikið að gera hjá okkur,“ segir Dýri Bjarnar, en auk þess að læra húsasmíðina tók hann hér á árum áður kokkanám og var á samningi á veitingahúsinu Fiðlaranum á Akureyri. Í ljósi vinnutímans í veitingahúsageiranum ákvað hann hins vegar að færa sig yfir í húsasmíðina, en býr engu að síður að reynslunni úr eldhúsinu og rifjar oft upp handbrögðin þar, segir í frétt VMA.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert