„Geitungatíminn er ekki byrjaður. Nokkrar drottningar hafa þó sést, en það eru tvær til þrjár vikur í þetta,“ segir Ólafur Sigurðsson hjá Meindýraeyðingu Reykjavíkur. Hann telur skortinn á sumarveðri ekki hafa áhrif á komu þeirra þar sem ekki sé nógu langt liðið á sumarið, það gæti þá helst eyðilagt fyrir þeim ef sumarið væri svo blautt að það myglaði í jörðinni.
Dreifingu geitunga telur hann nokkuð jafna, þó Fossvogurinn sé alltaf vinsæll áfangastaður, því hlýtt er þar í veðri og gróðursælt. Sjálfur lætur hann það ekki á sig fá að vera stunginn og segir það gerast mjög oft. „Þeir eru nú bara að vernda svæðið sitt, þeir skynja hreyfingar sem árás og þá fara þeir í vörn. Þetta er svo styggt.“
Þá er sumarið einnig góður tími fyrir rotturnar að sögn Ómars F. Dabney, starfmanns Meindýravarna Reykjavíkurborgar. Ekki er þó mikið um þær og tilkynningum hefur farið fækkandi. „Á þessum árstíma er fólk byrjað að taka til í garðinum hjá sér og þá koma í ljós rottuholur. Þá er bilun í lögnum í húsinu og rottan grefur sig upp í gegnum garðinn. Þegar hún er komin af stað hættir hún ekki fyrr en komið er upp á yfirborðið.“
Dreifingu þeirra telur hann vera nokkuð jafna eftir hverfum, þó meira sé um þær vestan Elliðaánna en austan. Þá brýnir hann fyrir fólki að vera vakandi fyrir því hvort bilun sé í lögnum, því rotturnar sæki að slíku.
Eitthvað er einnig um tilkynningar um mink í mannabyggðum, en helst segir Ómar það vera í kringum ár og vötn. Þá séu minkagildur vítt og breitt um borgina og nást tugir minka í þær á ári hverju. Það sé þó einungis í undantekningartilvikum sem þeir álpast inn í íbúðarhúsnæði.