Tvö af hvalveiðiskipum Hvals hf, Hvalur 8 og Hvalur 9, fóru í prufusiglingu í dag en þeir hafa ekki farið út til veiða frá árinu 2010.
Kvótinn í ár er 154 langreyðar og þetta er síðasta árið sem veiða má langreyði samkvæmt leyfi sem gefið var út til fimm ára árið 2009.
Í frétt mbl.is í byrjun maí kom fram að búist er við því að um 150 manns muni vinna við hvalveiðar og -vinnslu í sumar hjá Hval hf. í Hvalfirði, Hafnarfirði og hugsanlega á Akranesi.
Ýmis samtök hafa gagnrýnt fyrirhugaðar hvalveiðar. Til dæmis mótmælir stjórn Ferðamálasamtaka Íslands þessari ákvörðun harðlega og segir þær skaða orðspor landsins. Þá hefur Alþjóða dýraverndunarsjóðurinn, IFAW fordæmt veiðarnar. Einnig hafa Samtök dýraverndunarsinna sent bréf til ríkisstjórnar Bandaríkjanna þar sem þau eru hvött til þess að beita efnahagsþvingunum gegn Íslendingum vegna hvalveiða.