Þrír kettlingar og læða fundust í pappakassa fyrir ofan annan snjóflóðavarnargarðinn ofan við Ísafjörð í síðustu viku. Farið var með kettina í áhaldahús bæjarins þar sem starfsmenn tóku vel á móti þeim og hafa hugsað um þá síðustu daga.
Ísfirðingurinn Anna Porter deildi mynd af kettinum á Facebooksíðu sinni fyrir helgi í von um að einhver vildi gefa köttunum nýtt heimili. „Ég fékk mikil viðbrögð og það voru margir sem vildu bjarga þeim,“ sagði hún í samtali við mbl.is.
Dýralæknir skoðaði kettina og gaf bæjarstarfsmönnunum góð ráð um ummönnun þeirra. „Læðan var mjög skelkuð, það var eiginlega ekki hægt að koma nálægt henni fyrst um sinn,“ sagði Anna.
Kettlingarnir voru aðeins tæplega mánaðargamlir þegar þeir fundust. „Þegar við fengum þá fyrst voru þeir nýbúnir að opna augun,“ sagði Anna. Í kvöld fóru kettirnir síðan á nýtt heimili þar sem þeir munu dvelja þar til kettlingarnir eru orðnir nógu gamlir til að yfirgefa móður sína. „Þeir fóru með kvöldfluginu,“ bætir Anna við og kveður, ánægð með málalokin.