Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa valdið skemmdum á kálgarði er hann reyndi að stela um 400 kg af hvítkáli úr garðinum. Ekki vildi betur til en hann festi bifreið sína í kálgarðinum.
Maðurinn, sem var sviptur ökuréttindum, olli skemmdum á kálgarði í Hrunamannahreppi að næturlagi í ágúst í fyrra, þegar hann ók inn í kálgarðinn þar sem bifreiðin festist. Reyndi maðurinn að losa bifreiðina með spóli og raski, segir í skjölum málsins en hann hafði tekið upp um 400 kg af hvítkáli upp úr garðinum og safnað saman í haug fyrir aftan bifreiðina.
Maðurinn afþakkaði að honum yrði skipaður verjandi og játaði brot sín skýlaust. Jafnframt samþykkti hann skaðabótakröfu frá eigendum kálgarðsins.
Var maðurinn dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot sín, það er eignaspjöll, tilraun til þjófnaðar og umferðarlagabrot. Jafnframt var honum gert að greiða eigendum kálgarðsins 80.000 krónur í skaðabætur.