Rjúpu fjölgað um 47% milli ára

Íslenski rjúpnastofninn sveiflast mikið af náttúrulegum orsökum.
Íslenski rjúpnastofninn sveiflast mikið af náttúrulegum orsökum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rjúpnatalningar Náttúrufræðistofnunar Íslands nú í vor sýna fjölgun um nær allt land. Samandregið fyrir öll talningasvæði var meðalfjölgun rjúpna 47% á milli áranna 2012 og 2013.

Þessar niðurstöður koma á óvart en fækkunarskeiði sem hófst á vestanverðu landinu 2009-2010 og á norðan- og austanverðu landinu 2010-2011 er lokið a.m.k. í bili eftir aðeins 2 til 3 ár, segir í tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun.

Fyrri fækkunarskeið hafa varað í 5 til 7 ár og samkvæmt því átti næsta lágmark að vera á árunum 2015 til 2018. Þessi óvænta fjölgun nú minnir mest á atburði sem urðu í kjölfar friðunaráranna 2003 og 2004. Mat á veiðiþoli rjúpnastofnsins og nánari greining á ástæðum fjölgunar mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri rjúpna, afföllum 2012 til 2013 og veiði 2012.

Talið á 42 svæðum

Árlegri vortalningu Náttúrufræðistofnunar Íslands á rjúpu er lokið. Talningar gengu ágætlega og voru rjúpur taldar á 42 svæðum í öllum landshlutum. Alls voru taldir 1165 karrar sem er um 2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu samkvæmt stofnstærðarmati. Talið var á um 3% af grónu landi neðan 400 m hæðarlínu.

Talningarnar voru unnar í samvinnu við náttúrustofur landsins, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís og áhugamenn. Um 60 manns tóku þátt í talningunum að þessu sinni.

Greinileg aukning á 31 talningasvæði

Rjúpum fjölgaði um land allt 2012 til 2013. Greinileg aukning var á 31 talningasvæði (74%), kyrrstaða var á 7 svæðum (17%) og fækkun var á 4 svæðum (9%). Samandregið fyrir öll talningasvæði á landinu var aukningin að meðaltali um 47% árin 2012 til 2013 (miðgildið er 34%).

Náttúruleg lengd stofnsveiflu íslensku rjúpunnar er um 11 ár. Stofninn var í hámarki á Norðausturlandi vorið 1998 og svo 2010 eða tólf árum síðar. Áhrif veiðibanns 2003 og 2004 flækja þessa mynd en friðunin dró verulega úr afföllum rjúpna og stofninn óx í kjölfarið. Lýðfræðilegar breytingar í stofninum í kjölfar friðunar voru ekki þær sömu og einkenna náttúrlega uppsveiflu. Margt af því sem nú er að gerast minnir á það sem gerðist í kjölfar friðunaráranna 2003 og 2004, segir í frétt Náttúrufræðistofnunar.

Íslenski rjúpnastofninn sveiflast mikið af náttúrulegum orsökum. Fyrri hluti 20. aldar einkenndist af mjög háum toppum í rjúpnahámörkum og var sá síðasti í þeirri röð árið 1955. Síðustu áratugi hefur hins vegar gætt langtímaleitni til fækkunar í stofninum. Þannig hafa rannsóknir á Norðausturlandi t.d. sýnt marktæka fækkun rjúpna 1981–2003, sem nam um 4% á ári. Meginástæða þeirrar fækkunar var að afföll fullorðinna rjúpna höfðu aukist jafnt og þétt.

Í ljósi þessarar þróunar hefur Náttúrufræðistofnun á undanförnum árum lagt til að dregið yrði verulega úr rjúpnaveiðum og árið 2003 lagði stofnunin til fimm ára veiðibann. Í framhaldi af því ákvað umhverfisráðherra að friða rjúpur í þrjú ár eða til haustsins 2006, en friðuninni var aflétt haustið 2005 í kjölfar mikillar uppsveiflu í stofninum. Rjúpnaveiðar frá 2005 hafa verið takmarkaðar frá því sem var fyrr á árum og 2012 var veiðitíminn aðeins 9 dagar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert