Voru fyrri til að leggja fram tillöguna

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Samkvæmt tillögunni, sem Össur Skarphéðinsson er fyrsti flutningsmaður að, er gert ráð fyrir að slík atkvæðagreiðsla fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2014.

„Jafnframt ályktar Alþingi að þær úttektir sem framkvæmdarvaldið hefur boðað á stöðu samninga og þróun innan Evrópusambandsins skuli unnar í samvinnu þings og ríkisstjórnar. Heimilt skal að kveðja til vinnunnar bæði erlenda og innlenda sérfræðinga. Niðurstöður úttektanna liggi fyrir 1. desember 2013 og verði þá þegar lagðar fram til umræðu á Alþingi og kynntar þjóðinni sameiginlega af Alþingi og ríkisstjórn til undirbúnings þjóðaratkvæðagreiðslu við sveitarstjórnarkosningarnar 2014,“ segir ennfremur í tillögunni.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, boðaði slíka þingsályktunartillögu í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í gærkvöldi en þingflokkur Samfylkingarinnar var hins vegar fyrri til eins og Guðmundur gat í umræðum í þinginu í dag.

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert