Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra boðuðu til fundar í Þjóðmenningarhúsinu í dag til að gera grein fyrir stöðu ríkissjóðs, sem þeir sögðu talsvert verri en áður hafi verið gert ráð fyrir.
Aðspurður hvort þetta kæmi til með að hafa áhrif á þær skuldalækkanir, sem Framsóknarflokkurinn lofaði í kosningabaráttunni svaraði Sigmundur því að þær aðgerðir sem Framsóknarflokkurinn talaði fyrir eigi ekki að veikja ríkissjóð, heldur þvert á móti að styrkja hann með því að styrkja stöðu heimilanna.
Bæði Sigmundur Davíð og Bjarni lögðu mikla áherslu á að ríkisstjórnin legði áherslu á hagvaxtaraukningu en ekki niðurskurð til að koma efnahagslífinu aftur af stað. Bjarni nefndi í því samhengi að stuðningur væri við byggingu álvers í Helguvík í þinginu.
Sigmundur sagði að ríkisstjórnin muni gera hvað hún geti til að koma álverin, eins og öðrum fjárfestingarverkefnum, af stað. Hins vegar þurfi að endurmeta byggingu nýs Landspítala. Spurning væri hvort aðstæður kalli á breytta forgangsröðun í húsnæðismálum spítalans, eins og tímabundnar ráðstafanir, án þess þó að skýra nánar hvað í því felist.
Frétt mbl.is: Staða ríkissjóðs verri en talið var