Vigdís Hauksdóttir þingkona birti í dag mynd á Facebook-síðu sinni af fjölda flugna sem hafði safnast saman í horn glugga í hliðarsal við þingsalinn. Hún segir flugurnar vera til marks um að mikil sumarblíða bresti senn á.
„Þetta eru hálfgerðar rigningarflugur sem koma þegar það er svona ofboðslegt slagveður úti,“ sagði Vigdís, sem er menntaður garðyrkjufræðingur, þegar mbl.is sló á þráðinn til hennar. „Flugurnar sækja inn í þinghúsið því það er búið að vera úrhelli og gluggarnir eru opnir því það er sumar,“ bætti hún við og sagði flugurnar vera í stærri kantinum.
Hún segir þær boða sumarkomu. „Þetta er til marks um að það er alveg að bresta á mikil sumarblíða, enda ekki seinna vænna því það eru aðeins 11 dagar í lengsta dag sumarsins. 23. júní tekur daginn að stytta og okkur finnst varla komið vor. Ég segi að þetta sé boð um sumarkomu.“