Leikarinn Gunnar Eyjólfsson hlýtur heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands 2013 fyrir ævistarf sitt í þágu sviðslista á Íslandi. Verðlaunin voru afhent á Grímunni, íslensku sviðslistarverðlaununum, nú fyrir stundu.
Gunnar Eyjólfsson þreytti frumraun sína á leiksviði í sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Kaupmanni í Feneyjum árið 1945. Hann hefur því glatt íslenska leikhúsgesti í 68 ár. Hlutverk hans eru vel á annað hundrað talsins, flest í Þjóðleikhúsinu.
Salurinn fagnaði Gunnari með standandi lófaklappi þegar hann gekk á svið og tók við verðlaununum úr hendi Ásu Richardsdóttur forseta LSÍ. Hann minntist við þetta tækifæri þeirra sem undan honum gengu um fjalir leikhúsanna.
„Það leitar til hjarta og huga á þessari stundu, í þessu húsi, hvað ég er þakklátur fyrir það fólk sem ég kynntist hér, vann með og lærði svo ótrúlega mikið af,“ sagði Gunnar.
„Ég nefni engin nöfn en hér voru menn og konur sem höfðu svo góð áhrif, mótandi á unga leikara eins og mig og fleiri sem byrjuðu hér í þessu húsi. Ég hugsa til þeirra sem horfnir eru með miklu þakklæti og bið þess að hið eilífa ljós muni lýsa þeim um aldur og ævi. Megi það allt hvíla í friði,“ sagði Gunnar og bætti við:
„Ég þakka ykkur fyrir þetta kvöld og að fá að finna hvað kærleikur ykkar er mikill til mín. Takk fyrir.“