„Ég hef heyrt það á stjórnarandstæðingum að þeir hafa miklar áhyggjur af því að ekki hafi verið settur sérstakur umhverfisráðherra,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins í umræðum um störf þingsins á þingfundi í dag.
„Ég hef ekki áhyggjur af þessu,“ bætti hún við og sagðist telja að þeir flokkar sem nú skipi ríkisstjórn hafi mikinn áhuga á umhverfismálum.
Unnur Brá sagði umhverfismálin og umræðu um þau á undanförnum árum hafa að mjög miklu leyti hafa snúist eingöngu um virkjanir, vernd og nýtingu. Það sé skiljanlegt, en stærsta umhverfismálið sé hins vegar í raun að taka til við að að græða upp landið.
Hún sagði alla þekkja það sem ferðast um hálendið eða starfa þar hve landfok sé mikið. Sagðist hún því fagna fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um að stórefla skógrækt og landgræðslu.
Fleiri þingmenn vöktu máls á umhverfismálunum við upphaf þingfundar, þ.á.m. Helgi Hjörvar þingmaður Samfylkingar sem sagði það umhugsunarefni hve dregið hafi úr áherslunni á umhverfismál með nýrri ríkisstjórn. Engum hefði nokkurn tíma dottið það í hug að fara þannig með fjármálaráðuneytið.
„Ef að okkur finnst umhverfismál eins mikilvæg og fjármál þá eigum við að fara eins með þau,“ sagði Helgi Hjörvar. Hann nefndi sömuleiðis kynjamálin og ójöfn kynjahlutföll í nefndum og benti á að fyrrverandi ríkisstjórn hafi í byrjun síðasta kjörtímabils fyrst skipað eingöngu karlmenn í fjárlaganefnd.
„En við hlupum til og við löguðum það. Við þurfum að ræða þessa hluti og vinda ofan af þeim mistökum sem við gerum hratt og vel.“
Róbert Marshall formaður þingflokks Bjartrar framtíðar sagði tilefni til að láta ríkisstjórn vita af því að þingmenn muni hafa eftirlit með áherslum þeirra í umhverfismálum. „Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig farið er af stað,“ sagði Róbert.