Hvers virði er Capacent?

Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Fyrirtaka í máli þrotabús GH1 hf., sem áður hét Capacent hf., gegn Capacent ehf. fer fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. 

Málið snýst um kaup starfsmanna Capacent á rekstri og vörumerki fyrirtækisins í september 2010.

Forsaga þess er að sú að árið 2007 tók Capacent 700 milljóna króna erlent lán til að fjármagna yfirtökur á erlendum ráðgjafarfyrirtækjum. Höfuðstóll lánsins tvöfaldaðist við gengislækkun krónunnar, sem reyndist fyrirtækinu ofviða. Ekki náðist samkomulag við lánardrottininn Íslandsbanka um greiðslu lánsins. Þann 4. október 2010 var gamla Capacent, GH1 ehf., síðan tekið til gjaldþrotaskipta.

Keyptu fyrirtækið á 85,9 milljónir

Þrotabú GH1 sagði hærra kauptilboð hafa borist í reksturinn, en það sem starfsmennirnir greiddu. Kaupverðið var um 85,9 milljónir króna auk þess sem vörumerkið Capacent var keypt á 6 milljónir króna. Fram hefur komið að tilboð hafi meðal annars borist frá Creditinfo upp á 250-300 milljónir króna, eftir að félagið var úrskurðað gjaldþrota.

Töldu eigendur skulda 167 milljónir króna

Dómkvaddir matsmenn er unnu skýrslu fyrir skiptastjóra GH1 ehf., þar sem þeir lögðu mat á hvert eðlilegt söluverð hefði verið, töldu eigendur Capacent ehf. skulda þrotabúinu 167 milljónir króna eftir kaupin. Þá heldur skiptastjóri þrotabúsins því einnig fram að eigendur Capacent hafi keypt veðsettar kröfur út úr þrotabúi félagsins sem síðar var tekið til gjaldþrotaskipta.

Ingvi Þór Elliðason, forstjóri Capacent og annar stefndu, hefur sagt að þar sem um ráðgjafafyrirtæki sé að ræða liggi mestu verðmæti þess í starfsfólkinu, sem ekki geti orðið eign þrotabúsins. Ef starfsmennirnir hefðu ekki keypt fyrirtækið hefði það farið í þrot og hætt störfum.

Lögmaður Capacent segir málflutning skiptastjóra ekki halda vatni

Kristinn Hallgrímsson, lögmaður Capacent ehf., segir að nú liggi fyrir nýtt yfirmat þriggja dómkvaddra matsmanna, þar sem fram komi að það verð sem greitt var fyrir eignir þrotabúsins hafi verið eðlilegt. Þá liggi einnig fyrir að saksóknari hafi fellt niður kærumál skiptastjórans gegn fyrrverandi fyrirsvarsmönnum eldra Capacent þar sem krafist var opinberrar rannsóknar á viðskiptunum og að fyrirsvarsmönnunum yrði refsað fyrir tiltækið. Lítið segir hann því standa eftir af málflutningi skiptastjóra.

Skiptastjóri GH1, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, segir ekki vera búið að dæma í málinu. Málflutningur sé eftir og enn sé verið að afla gagna fyrir aðalmeðferð. Hvað nýja yfirmatið varðar segir hún mikil áhöld vera um það og gildi þess. Farið verði fram á nýtt mat á tilteknum hlutum á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert