Kjarninn nýr „appmiðill“

Magnús Halldórsson
Magnús Halldórsson

Kjarninn mun senn bætast við íslenska fjölmiðlaflóru. Að sögn Magnúsar Halldórssonar, eins eigenda miðilsins mun aðalútgáfuformið vera gegnum spjaldtölvur og snjallsíma. Hann segir einnig að meiri áhersla verði lögð á erlendar fréttir en gengur og gerist í hérlendum fjölmiðlum. Miðillinn, sem mun hefja störf síðsumars, verður án endurgjalds.

Þórður Snær Júlíusson verður ritstjóri Kjarnans. Þeir Magnús störfuðu báðir þar til fyrir stuttu hjá 365 miðlum, Þórður sem viðskiptaritstjóri Fréttablaðsins en Magnús sem viðskiptaritstjóri Vísis og Stöðvar 2.

Þeir sögðu báðir upp störfum í mars síðast liðnum, stuttu eftir að Magnús skrifaði pistilinn Litli karlinn þar sem hann gagnrýndi harðlega afskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar af ritstjórn miðlanna. 

Magnús greindi fyrst frá því í gær að tilefni greinaskrifanna hafi verið þau að Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir óskuðu eftir því við Ara Edwald forstjóra 365 að Þórður Snær yrði rekinn vegna skrifa hans um félagið IP Studium, í eigu Ingibjargar.

Auk Magnúsar og Þórðar Snæs standa að Kjarnanum þeir Ægir Þór Eysteinsson, fréttamaður, sem hætti störfum á RÚV nýverið, Gísli Jóhann Eysteinsson, sem starfað hefur við auglýsingar og Hjalti Harðarson sem áður starfaði við tæknimál hjá Símanum. Ofangreindir fimm einstaklingar eru jafnframt eigendur miðilsins.

Kjarninn á facebook

Merki nýja miðilsins
Merki nýja miðilsins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert