Komið hefur í ljós að áburður frá breskum birgja Skeljungs (áburðarframleiðandanum Origin) hafi innihaldið meira magn kadmíums en leyfilegt er. Skeljungi barst tilkynning frá Matvælastofnun (MAST) þessa efnis síðdegis í gær.
Kemur þetta Skeljungi mjög á óvart, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu en þar kemur fram að íslenskar reglur um magn kadmíums, sem eru með þeim strangari sem þekkjast, heimila aðeins áburð með kadmíum-innihaldi undir 50 mg/kg P. Sýni sem tekin voru á vegum Matvælastofnunar reyndust innihalda of mikið magn kadmíums eða á bilinu 53 til 111 mg/kg P.
„Skeljungur fékk fyrr á árinu niðurstöður mælinga óháðrar rannsóknarstofu í Bretlandi (NRM) um að kadmíum-magn fosfórs sem nota skyldi í áburð fyrir Íslandsmarkað í ár væri langt innan leyfilegra marka.
NRM mældi kadmíum-magn áburðar frá Skeljungi einnig á síðasta ári og reyndust niðurstöðurnar þá vera í fullu samræmi við sjálfstæðar sýnatökur og mælingar Matvælastofnunar, þ.e. magn kadmíums reyndist langt innan viðmiðunarmarka. Ósamræmið í niðurstöðum mælinganna nú kemur Skeljungi því í opna skjöldu.
Skeljungur hefur dregið lærdóm af samskonar máli sem upp kom árið 2011 og leggur því mikla áherslu á að upplýsa með skjótum hætti alla þá aðila sem málið varðar. Tilkynning hefur þegar verið send til viðskiptavina sem keyptu umræddan áburð. Fyrirtækið mun veita nánari upplýsingar um málið um leið og þær berast og grípa til viðeigandi aðgerða í samráði við Matvælastofnun.
Ekki þarf að fara í grafgötur um að Skeljungur lítur þetta mál afar alvarlegum augum og biðst velvirðingar,“ segir enn fremur í tilkynningu frá Skeljungi.