Skora á Sigmund að fordæma ofbeldi gegn samkynhneigðum í Rússlandi

Frá mótmælum gegn lögum gegn „samkynhneigðum áróðri“ í gær
Frá mótmælum gegn lögum gegn „samkynhneigðum áróðri“ í gær AFP

Stjórn félags ungra Framsóknarmanna í Reykjavík skorar á forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem og nýkjörna ríkistjórn að sýna réttindabaráttu samkynhneigðra stuðning sinn í verki með því að fordæma það ofbeldi sem samkynhneigðir verða nú fyrir á götum Moskvu í kjölfar laga sem samþykkt voru í neðri deild rússneska þingsins. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér í kvöld.

Stjórn félagsins vitnar í grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins þar sem segir:
"Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs."

Stjórnin telur nauðsynlegt að ríkistjórn Ísland, fyrir hönd þjóðarinnar, gefi út skýr skilaboð þess efnis að hverskonar hatursglæpir og ofbeldi sé ekki liðið í samfélagi þjóðanna. 
Við þorum, við getum og við viljum vera leiðandi í réttindabaráttu samkynhneigðra um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert