Þrír þingmenn Vinstri grænna, Ögmundur Jónasson, Árni Þór Sigurðsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir leggja í dag fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar þess efnis að Íbúðalánasjóður og fjármálastofnanir fái tilmæli frá ráðherrum fjármála, efnahagsmála og félagsmála um að frestað verði innheimtuaðgerðum og nauðungarsölum þar til fyrir liggur hverjar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum verða.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að enda þótt gefin hafi verið afdráttarlaus loforð í kosningabaráttunni um aðgerðir í þágu skuldugra heimila, sem mjög hafi eflt væntingar fólks um ráðstafanir í þá veru, hafi komið á daginn að ekki séu fyrirliggjandi neinar tillögur um slíkar ráðstafanir sem að gagni gætu komið. Telja flutningsmenn því tillöguna nauðsynlegt skref í þá átt að eyða óvissu um skuldastöðu og skýla skuldugum heimilum fyrir innheimtuaðgerðum uns tillögur ríkisstjórnarinnar liggja fyrir.