„Gjörsamlega ólíðandi“

Aðgerðarsinnar mótmæla lögum gegn samkynhneigð fyrir utan rússneska þinghúsið í …
Aðgerðarsinnar mótmæla lögum gegn samkynhneigð fyrir utan rússneska þinghúsið í Moskvu. AFP

„Þetta eru hræðileg lög sem ganga gegn öllum hugmyndum um lýðræði sem við þekkjum hér á Vesturlöndum,“ segir Sigurður Júlíus Guðmundsson varaformaður Samtakanna '78. Samtökin hafa efnt til mótmæla fyrir utan rússneska sendiráðið á morgun klukkan 17:00 í tilefni af nýrri löggjöf sem samþykkt var í neðri deild rússneska þingsins sl. þriðjudag sem gerir allan „samkynhneigðan áróður“ til ólögráða einstaklinga refsiverðan.

„Verið er að stilla hinsegin fólki upp við vegg og neyða það til að þegja um tilvist sína,“ segir Sigurður. „Það er gjörsamlega ólíðandi.“ Með lögunum er einnig gert refsivert að móðga trúfélög og trúariðkendur. „Þetta er gríðarlega mikil afturför og með því verra sem við erum að sjá um allan heim. Í rauninni er verið að hverfa aftur til fornaldar. Lögin gera það að verkum að gleðigöngur eru bannaðar, sem og öll upplýsingagjöf eða kynningar um samkynhneigð, því þetta getur allt flokkast sem móðgun við trúfélög.“

Brot einstaklinga gegn lögunum um samkynhneigð geta varðað fangelsi eða sektir allt að 5000 rúblum eða um 19.000 íslenskum krónum, en brot fyrirtækja og skóla geta varðað sektum allt að 500.000 rúblum eða um 1,9 milljónum íslenskra króna.

Aðspurður um alþjóðlega þróun réttinda samkynhneigðra segir Sigurður ríki stefna í báðar áttir. „Svo virðist sem annaðhvort séu miklar framfarir eða mikil afturför,“ segir hann og vísar m.a. til lögfestingar hjónabanda samkynhneigðra samfara mjög strangri löggjöf í Nígeríu sem leggur allt að fjórtán ára fangelsisvist við samkynhneigð.

Í kjölfar lagasetningarinnar hafa samkynhneigðir orðið fyrir miklu aðkasti og ofbeldi. „Um leið og lögin voru samþykkt hófust gríðarlegar árásir á hinsegin fólk, bæði þá sem voru að mótmæla og svo hreinlega bara hvar sem til þeirra sést á götum úti. Svo handtók lögreglan hinsegin fólkið sem varð fyrir barsmíðunum en lét flesta aðra í friði.“ Samtökin All Out, sem berjast fyrir réttindum LGBT-fólks hafa hafið undirskriftasöfnun til að mótmæla þessum árásum, en á síðu þeirra er því haldið fram að tveir samkynhneigðir einstaklingar hafi þegar verið myrtir.

Óþekktur andstæðingur réttinda samkynhneigðra kýlir rússneska baráttumanninn Nikolai Alexeyev á …
Óþekktur andstæðingur réttinda samkynhneigðra kýlir rússneska baráttumanninn Nikolai Alexeyev á mótmælafundi samkynhneigðra í síðasta mánuði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka