„Menn standa þétt saman, sama úr hvaða flokki eða hvaðan af landinu þeir koma þegar náttúran veldur landsmönnum tjóni,“ sagði Sigurður I. Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í sérstakri umræðu um kaltjón og harðindi á Norður- og Austurlandi sem fór fram á Alþingi í morgun.
Þá sagði hann úttektir sýna að mikið kaltjónið sé mikið, og kostnaður við endurræktun gæti numið um 520 milljónum króna. „Bændur eru harðduglegt fólk og vanir að kljást við erfið verkefni.“ Hann sagði að ríkisstjórnin ætli að veita þeim stuðning, en finna þyrfti út reglur til að vinna eftir og að bíða þurfi og sjá hvert heildartjónið væri.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingar, sagði síðustu ríkisstjórn hafa staðið þétt við bændur í náttúruhamförum síðustu ára, og nefndi þar fjártjónið, snjóflóð, jarðskjálfta og eldgos, og spurði hvort núverandi ríkisstjórn ætlaði að gera slíkt hið sama. Hann sagði bændur þurfa skýr skilaboð þess efnis að komið yrði til móts við þá. Hann sagði þáverandi ríkisstjórn hefði varið 190 milljónum króna í bjargráðasjóð árið 2010 og 80 milljónum árið 2011 vegna eldgosanna. Þannig hefði verið komið til móts við bændur.
„Skoða þarf til framtíðar hvernig og að hvaða marki veita eigi fé úr sameiginlegum sjóðum landsmanna vegna tjóns á óvátryggðum eignum,“ sagði Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður VG. Hún sagði starfshóp skipuðum af fyrrverandi forsætisráðherra hafa skilað skýrslu í desember með tillögum um fyrirkomulag bóta til tjónþola í kjölfar náttúruhamfara. Helsta niðurstaða nefndarinnar væri að tjón af völdum náttúruhamfara ætti að fella undir tryggingavernd af einhverju tagi og að stofnaður yrði sérstakur hamfarasjóður sem sinna ætti verkefnum varðandi forvarnir gegn náttúruvá og greiða bætur vegna náttúruhamfara sem ekki fást greiddar úr vátryggingum. Aðilar að slíkum sjóði ættu að vera ríkissjóður, sveitafélög, hagsmunaaðilar og Bændasamtök Íslands.
„Við eigum bjargráðasjóð sem er 100 ára að stofni til, sem á að mæta harðindum. 100 árum síðar eiga grunngildi sjóðsins ennþá við,“ sagði Haraldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokks. Þá lagði hann til að gerðar yrðu breytingum á lögum um sjóðinn til að tryggja að hann geti brugðist við þegar þarf. Koma þurfi afkomu sjóðsins í fastari horf til lengri tíma og eiga þannig tryggingavernd.