„Það kemur verulega á óvart að sérstakt veiðigjald sé hækkað umtalsvert á uppsjávarfisk,“ segir Friðrik Jón Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ, aðspurður um fyrstu viðbrögð útvegsmanna við frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um veiðigjöld sem dreift var á Alþingi í gærkvöldi. „Við höfum ekki séð forsendur á bak við þetta og þykir þetta mjög sérstakt.“ Í frumvarpinu er sú hækkun rökstudd með bættri afkomu uppsjávarveiðifyrirtækja en segist Friðrik engin gögn hafa séð til að styðja það.
„Það hefur komið fram að ríkisstjórnin ætli að setja sérstök veiðigjöld miðað við afkomu einstakra fyrirtækja. Það er ekki gert þarna,“ útskýrir Friðrik. „Þetta mun koma mjög misjafnt niður á útgerðirnar, sum fyrirtæki munu ekki borga neitt sérstakt veiðigjald vegna afslátta en önnur borga fullt gjald.“
Aðspurður um lækkun álagningar á botnfiskveiðar segir Friðrik hana hafa verið fyrirsjáanlega, en alls er áætlað að tekjur af veiðigjaldinu lækki um 3,2 milljarða á þessu ári og 6,4 milljarða árið 2014. „Það sem vantar er að reynt sé að taka tillit til mismunandi afkomu einstakra tegunda og einstakra fyrirtækja.“
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri útgerðarfélagsins Brims hf. tekur í sama streng. „Ég held að þetta séu mikil vonbrigði. Ennþá er reynt að halda sig við þorskígildisstuðla sem voru aldrei hugsaðir sem skattstofn og svo á að halda áfram að mismuna fyrirtækjum. Þetta er skref afturábak því það er verið að flækja fiskveiðistjórnunarkerfið enn meira.“
Hann segist hafa vonast eftir einföldun veiðigjaldsins. „Ég bjóst við því að kerfið yrði einfaldað, lagt jafnt á alla og gert skýrt þannig að allir skildu hvernig skattlagningin virkar. Þetta eru gríðarleg vonbrigði því það er haldið áfram í fúski í stað þess að taka upp fagleg og vönduð vinnubrögð.“