Stúlka á Skagaströnd varð fyrir því óhappi í kvöld að verða undir sínu eigin fjórhjóli. Svo virðist sem stúlkan hafi sett fótinn í jörðina og misst hann undir farartækið, með þeim afleiðingum að hún dregst undir fjórhjólið. Hún er ekki lífshættulega slösuð, en er á leið á Akureyri þar sem hún verður saumuð.
Að sögn lögreglu er hjólið hvorki skráð né tryggt og stúlkan var hvorki með hjálm né annan öryggisbúnað. Lögregla brýnir fyrir fólki notkun viðeigandi öryggisbúnaðar við notkun fjórhjóla sem og allra annarra ökutækja.