Füle vonsvikinn með ákvörðun Íslands

Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins á blaðamannafundinum …
Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins á blaðamannafundinum í Brussel nú síðdegis. Skjáskot/EbS Channel

„Ef þú spyrð mig persónulega þá er mér þetta ekki ljúft, þar sem ég hef verið með í ferlinu frá upphafi og heimsótti Ísland nokkrum sinnum. En ég er líka fagmaður og virði vilja kjörinna fulltrúa og almennings,“ sagði Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins aðspurður á blaðamannafundi hvort ákvörðun Íslands um að gera hlé á aðildarviðræðum sé honum vonbrigði. 

Þeir Gunnar Bragi og Füle komu fram á blaðamannafundi eftir að sá fyrrnefndi tilkynnti Evrópusambandinu formlega um ákvörðun íslenskra stjórnvalda. Füle sagðist kunna að meta það að fyrsta opinbera ferð nýs utanríkisráðherra erlendis væri til Brussel og sagði það til marks um sterk tengsl milli Íslands og ESB.

Samband Íslands og ESB áfram sterkt

„Ég legg áherslu á það að við virðum hina nýju nálgun Íslendinga í aðildarferlinu,“ sagði Füle en bætti því við að Evrópusambandið hafi áfram heilan hug til þess að ljúka ferlinu, enda hafi afstaða sambandsins til aðildar Íslands verið skýr frá upphafi.

„Við erum enn sannfærð um ávinning sterkra tengsla milli Íslands og Evrópusambandsins og teljum að aðildarferlið sé besti farvegurinn til að styrkja þau tengsl. Hvað okkur varðar er ekki aðeins til staðar vilji heldur einnig geta til að ljúka ferlinu.“

Hann sagði að þótt hlé væri gert á ferlinu nú þá sé samband ESB og Íslands sterkara en það var við upphaf þess, en ekki veikara. „Við viljum byggja á þeim árangri sem náðst hefur, styrkja það sem náðst hefur fram.“

Füle skaut því jafnframt inn að það hefði komið honum ánægjulega á óvart að sjá að lög og reglur á Íslandi séu að mörgu leyti í mun samhæfðari Evrópusambandinu en ýmissa aðildarríkja.

Hann sagði framkvæmdastjórnina nú munu fylgjast með því hvernig þessari ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar verði framfylgt á Íslandi. Hann sagði það bæði Evrópusambandinu og Íslandi til hagsbóta að endanleg ákvörðun verði ekki dregin á langinn.

„Við erum hluti af Evrópu“

Gunnar Bragi sagði markmið Brussel farar sinnar eingöngu að upplýsa framkvæmdastjórn ESB um að hlé verði gert á viðræðum, ekkert annað. „Við erum hluti af Evrópu og við munum gera hvað við getum til að styrkja sambandið þar á milli.“

Hann var spurður að því á fundinum hvernig hægt sé að líta á að hlé hafi í reynd verið gert þegar gefið sé út að ákvörðunin sé bundin þjóðaratkvæðagreiðslu sem enn hafi ekki farið fram en svaraði því til að svona virki lýðræðið. 

„Þetta er ákvörðun íslenskra stjórnvalda, að halda viðræðum ekki áfram. Við ætlum að leggja mat á ýmsa hluti, engin dagsetning hefur enn verið sett um þjóðaratkvæðagreiðsluna.“ Gunnar Bragi lagði jafnframt áherslu á það að þessi ákvörðun væri pólitísk innan Íslands en enginn áfellisdómur yfir aðildarferlinu sem slíku.

Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins á blaðamannafundinum …
Gunnar Bragi Sveinsson og Stefan Füle stækkunarstjóri Evrópusambandsins á blaðamannafundinum í Brussel nú síðdegis. Skjáskot/EbS Channel
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka