„Það virtist sem svo að menn væru almennt komnir á þá skoðun að skynsamlegra væri að geyma eggin í fleiri en einni körfu,“ sagði Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi umhverfisráðherra, í umræðu um orku- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag, en hún sagði að í aðdraganda kosninganna hefði svo virtist sem hefðbundin gamaldags átök um áferð atvinnulífsins væru að baki og margir hefðu jafnvel sagt tíma stóriðjustefnunnar vera liðinn.
Svandís sagði áhugavert að í kaflanum um atvinnulíf í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar komi orðið iðnaður ekki fyrir og sagðist telja að þær áherslur sem nú væru að koma í ljós veki menn til umhugsunar um hvort þessi breyting sem orðið hafi á atvinnustefnunni hafi ekki verið meiri en svo að gamla stóriðjustefnan hafi lúrt undir allan tímann.
„Hver er hlutur stóriðjunnar í framtíðarsýn ráðherra og hvernig spilar hún inn í þá staðreynd að jarðhitinn er í vanda og að gríðarstór hluti vatnsafls hefur þegar verið virkjaður á Íslandi,“ spurði Svandís.
„Við viljum laga það sem er bilað og efla það sem er í lagi,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún sagði stöðugt fyrirkomulag atvinnureksturs, hvaða nafni sem hann nefnist, vera forsendu þess. Áhersla verði lögð á þrjár meginstoðir gjaldeyrisskapandi greina; ferðaþjónustu, iðnaðartengdan útflutning og sjávarútveg.
Orkunýtingu segir Ragnheiður vera eina af þessum stoðum atvinnuuppbyggingar. Þá sagðist hún telja stefnu fyrri ríkisstjórnar, hvað jarðvarma varðar, vera kolranga. Ekki hefði verið rétt að færa allar helstu vatnsaflsvirkjanir úr nýtingarflokki og reiða sig alfarið á jarðvarma, hann þurfi meiri tíma. Telur hún því að horfa þurfi jafnt til vatnsafls og jarðvarma, en allt þurfi það að gera með sjálfbærni í huga og í góðri sátt við náttúru.