Brunuðu með öskrum framhjá hestunum

Hestamenn á útreiðum.
Hestamenn á útreiðum. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Feðgin sem voru í útreiðatúr í Hafnarfirði síðdegis í dag vissu ekki hvaðan á þau stóð veðrið þegar bíl var ekið á ofsahraða hjá þeim með miklum látum og farþegi hékk út um hliðargluggann með öskrum. Hávaðinn fældi hrossin með þeim afleiðingum að stúlkan datt af baki en slapp sem betur fer ómeidd.

„Báðir hestarnir okkar stukku út af götunni og dóttir mín flaug af baki,“ segir Gunnar Guðmundsson hestamaður. Þau feðgin eru bæði þaulvanir knapar og hefur dóttir hans, sem nú er 17 ára, riðið út frá 5 ára aldri. Gunnar segir það mildi að hún lenti mjúklega og meiddist ekki.

Hann segir þetta umhugsunarefni í ljósi fréttar af ökumanni sem olli slysi á börnum á hestbaki í Garðabæ í gær þegar hann flautaði að þeim. Gunnar segist vonast til að vitundarvakning verði um meiri tillitsemi vegfarenda.

Mótorhjólamenn yfirleitt tillitssamir

Atvikið í dag átti sér stað á sumarbústaðavegi í Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Gunnar segir að bíllinn hafi komið brunandi á miklum hraða eftir veginum og hvergi slegið af þótt hann hlyti að sjá hestana. Farþegi hafi hangið út um hliðarrúðuna öskrandi og gargandi, annað hvort af hræðslu eða í einhverjum tryllingi.

Aðspurður segir Gunnar sem betur fer undantekningartilfelli að ökumenn hegði sér svona gagnvart hestafólki. „Sérstaklega ekki bílar, en það kemur fyrir hérna á sumrin með krossarana sem fara eftir reiðgötunum. Þeir sýna okkur þó í flestum tilfellum mikla tillitsemi, hægja á sér eða drepa á hjólunum til að hleypa okkur hjá.“

Margir hestamenn sleppa nú hrossum sínum á sumarbeit en Gunnar bendir á að á móti komi á reiðgöturnar ferðamenn á vegum hestaleiga sem fari mikið um þetta svæði. „Þá erum við að tala um alóvant fólk. Ég veit ekki hvað hefði gerst hérna í dag ef þessi bíll hefði lent í 50 hesta hópi. Þótt hann hafi getað sneitt fram hjá okkur tveimur er ekki þar með sagt að hann hefði getað sneitt fram hjá stórum hópi.“

Hlýtur að hafa séð börnin

Glæfralegur ökumaður fældi hesta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert