Verksamningur um gerð Norðfjarðarganga var undirritaður á Neskaupsstað síðdegis í dag. Samninginn undirrituðu fulltrúar Vegagerðarinnar, Suðurverks og Metrostav sem saman áttu lægst boð í verkið, 9,3 milljarða króna. Víða var flaggað í Fjarðabyggð í dag í tilefni dagsins.
Athuganir á möguleikum á nýjum jarðgöngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar hafa staðið yfir í langan tíma. Í fyrstu skýrslu sem unnin var til að undirbúa langtímaáætlun um jarðgöng á vegakerfinu og kom út árið 1987 voru brýnustu verkefnin talin vera Ólafsfjarðarmúli, Botnsheiði og Breiðadalsheiði, Fjarðarheiði og Oddsskarð.
Jarðgöng eru fyrir mörgum árum komin um Ólafsfjarðamúla og undir Botnsheiði og Breiðadalsheiði á Vestfjörðum. Norðfjarðargöng eru þriðja verkefnið af þessum lista og munu þau leysa núverandi veg um Oddsskarð af hólmi.
Göngin um Oddskarð voru grafin á árunum 1972-1977. Þau eru 640 m löng, einbreið með 2 útskotum til mætinga og með blindhæð. Göngin liggja í 626 m hæð y.s. og þar er því erfið vetrarfærð.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri áréttaði við athöfnina að núverandi Norðfjarðarvegur milli Eskifjarðar og Norðfjarðar uppfylli á köflum ekki nútímakröfur um umferðaröryggi og akstursþægindi. Vegurinn sé bæði brattur, með kröppum beygjum og takmarkaðri sjónlengd.
Heildarlengd nýju ganganna með vegskálum verður um 7,9 km. Í tengslum við jarðgangaframkvæmdirnar þarf að byggja nýjar brýr á Norðfjarðará og Eskifjarðará, en bygging þeirra tilheyrir ekki jarðgangaútboðinu. Verktakinn áætlar að hefja gangagröft frá Eskifirði í nóvember á þessu ári og grafa þaðan um 4,9 km, og á móti frá Fannardal í Norðfirði er ætlunin að byrja í janúar 2014 og grafa þaðan samtals 2,6 km.
Miðað er við að sjálfum gangagreftrinum ljúki á árinu 2015 og heildarverkinu síðan 1. september 2017. Heildarkostnaður við verkefnið frá upphafi til enda er áætlaður um 12 milljarðar króna.