Hollvinir ósáttir við fyrirhugaðar breytingar

Þorgrímur Gestsson, formaður stjórnar Hollvina RÚV
Þorgrímur Gestsson, formaður stjórnar Hollvina RÚV mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Hollvinir RÚV eru ósáttir við þær breytingar sem gera á varðandi kjör stjórnarmanna hjá Ríkisútvarpinu. Þetta kemur fram í ályktun sem þeir hafa sent frá sér.

„Blekið var varla þornað á nýjum lögum um Ríkisútvarpið þegar ný ríkisstjórn lét verða eitt af sínum fyrstu verkum að leggja fram tillögu um breytingu á þeim í þá átt að innleiða á ný flokkspólitíska skipun stjórnar Ríkisútvarpsins í stað þess að það sé falið sérstakri valnefnd. Rök mennta- og menningarmálaráðherra eru þau að „ólýðræðislegt og ógagnsætt“ sé að fela valnefnd að tilnefna fimm af sjö stjórnarmönnum.

Lagabreytingin sem boðuð er felst í því að 3. og 4. málsgrein 9. greinar gildandi laga falli brott. Þar er gert ráð fyrir því að ráðherra skipi fimm menn í valnefnd sem ætlað er að skipa stjórnina, Allsherjar- og menntamálanefnd tilnefnir einn, Bandalag íslenskra listamanna einn og Samstarfsnefnd háskólastigsins einn. Síðan skipar valnefndin fimm manna stjórn Ríkisútvarpsins. Þannig er þess gætt að almannavaldið hafi áhrif á val stjórnarmanna en velji þá þó ekki beint. Jafnframt er með þessu tryggt að fulltrúar þeirra sem sinna menningar- og menntalífi þjóðarinnar komi einnig að valinu.

Nú er gert ráð fyrir að tekinn verði upp á ný sá gamli háttur að Alþingi tilnefni alla stjórnarmenn með hlutbundinni kosningu. Það fyrirkomulag var gagnrýnt harðlega áratugum saman og vandséð er hvaða lýðræði og gegnsæi er fólgið í því að fulltrúar í stjórn séu valdir í innsta hring stjórnmálaflokkanna og síðan dyggilega studdir af flokksfélögum á þingi.

StjórnHollvina Ríkisútvarpsinsmótmælir þessari breytingu og bendir á að þótt því sé heitið „að Alþingi leitist við að sjá til þess að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins“ sé engin trygging fyrir því að svo verði. Full ástæða er til að óttast að hún opni fyrir flokkspólitísk afskipti af málefnum útvarpsins á ný, sem voru löngum gagnrýnd harðlega.

Núgildandi lögum var ætlað að losa Ríkisútvarpið undan beinu boðvaldi pólitískt kjörinna fulltrúa en grundvallaratriði í rekstri almannaútvarps er að það sé sem sjálfstæðast í efnistökum gagnvart ríkisvaldinu eins og öðrum valdaþáttum þjóðfélagsins. Fyrirhuguð lagabreyting vekur upp þann gamla draug sem Ríkisútvarpið hefur átt við að etja í gegnum tíðina, einkum fréttastofurnar, að þurfa að sitja undir tilraunum stjórnmálamanna til að hafa áhrif á efnistök. Fyrirboði þessa eru meðal annars þau ummæli sem stjórnmálamaður viðhafði fyrir síðustu kosningar að losna þyrfti við ákveðna starfsmenn af Ríkisútvarpinu.

Jafnframt er lagt til að horfið verði frá því að fulltrúi starfsmanna eigi fulltrúa í stjórn, án atkvæðisréttar þó. Það er stórt skref afturábak. Aukið starfsmannalýðræði er talið vera mikilvægur þáttur í þróun til lýðræðislegri stjórnarhátta en löngum hafa verið viðhafðir hér á landi, undir ofurvaldi hinna stóru pólitísku stjórnmálaflokka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert