Litrík og friðsamleg kossamótmæli

Fjöldi fólks er nú saman kominn við sendiráð Rússlands í Garðastræti til að mótmæla með friðsamlegum hætti nýsamþykktum lögum sem gerir umfjöllun um samkynhneigð ólöglega í Rússlandi. Margir sýndu kærleik og ást og kysstust innilega umvafðir regnbogafánanum.

Samtökin ´78 boðuðu til mótmælanna undir slagorðinu „Allt í sleik“ og var fólk hvatt til að kyssast líkt og mótmælendur hafa einnig gert í Rússlandi og víðar. Löggjöfin, sem samþykkt var í neðri deild rússneska þingsins 11. júní s.l., gerir það refsivert að halda því fram að samkynhneigð sé eins eðlileg og gagnkynhneigð og önnur löggjöf gerir það refsivert að móðga trúfélög og trúariðkendur.

„Samtökin '78 geta ekki staðið hjá og horft upp á slík lög verða að veruleika og krefjast þess að rússneska þingið taki málið upp að nýju og sjái að sér. Samtökin '78 krefjast þess einnig að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir réttindum hinsegin fóks, aðstandendum þeirra og allra þeirra sem þessi löggjöf hefur bein eða óbein áhrif á og fordæmi þessi hræðilegu lög,“ sagði í fundarboði mótmælanna.

Íslensk stjórnvöld hafa tjáð Rússum hug sinn

Utanríkisráðuneyti Íslands hefur rætt við fulltrúa rússneskra stjórnvalda og áréttað stuðning Íslands við réttindin samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks. Fram kemur á vef ráðuneytisins að því hafi einnig verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld að mikilvægt sé að umræða um samkynhneigð sé upplýst og vinni gegn fordómum og ofbeldi.

„Fulltrúar alþjóðlegra mannréttindasamtaka og Evrópuráðsins telja ótvírætt að ákvæði frumvarpsins gangi gegn alþjóðlegum skuldbindingum rússneskra stjórnvalda svo sem Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir á vef utanríkisráðuneytisins.

„Íslensk stjórnvöld taka heilshugar undir þau sjónarmið og  telja mikilvægt að mannréttindi hinsegin fólks verði tryggð í Rússlandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.“

Frétt mbl.is: „Gjörsamlega ólíðandi“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert