„Það verður yfirþjóðleg lagasetning innan Evrópusambandsins, það er ljóst,“ sagði Ole Poulsen, einn helsti sérfræðingur Dana í sjávarútvegsmálum og fyrrverandi sviðsstjóri í sjávarútvegsráðuneyti Danmerkur, á hádegisfundi í dag á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands spurður að því hvort Ísland gæti fengið varanlega undanþágu frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og haldið fullum yfirráðum yfir sjávarútvegsmálum sínum ef af inngöngu í það yrði.
Poulsen sagðist ekki geta svarað spurningunni öðruvísi. Hann sæi hins vegar ekki að það skipti máli hvar ákvarðanirnar í sjávarútvegsmálum væru teknar svo framarlega sem grundvallarmarkmið sjávarútvegsstefnu Íslands og Evrópusambandsins væru þau sömu sem hann sagðist telja að væri raunin í dag. Það skipti mestu máli að hans mati en í erindi sínu fjallaði hann um sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins og þær breytingar sem fyrirhugað er að gera á henni.
Heimilt að veiða hafi þau kvóta
Meðal þeirra breytinga sem gera ætti á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins væru aðgerðir til þess að stuðla að uppbyggingu fiskistofna, færa fleiri ákvarðanir frá stofnunum sambandsins til svæðisbundinna stjórna og hagsmunaaðila, banna brottkast og heimila framsal fiskveiðikvóta á milli ríkja. Almenna reglan innan Evrópusambandsins væri að utan 12 mílna landhelgi ríkja sambandsins væri fiskiskipum frá öðrum ríkjum innan þess heimilt að veiða svo framarlega sem þau hefðu kvóta.
Poulsen sagði að hins vegar væri miðað við sögulega veiðireynslu við úthlutun fiskveiðikvóta á hverju veiðisvæði fyrir sig í samræmi við regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Þá væri einnig til staðar sú vinnuregla að ríki gæti ákveðið sjálft heildarkvóta í ákveðnum stofni ef það hefði eitt hagsmuna að gæta vegna veiða úr honum. Hann lagði hins vegar áherslu á að þessi regla fæli ekki í sér undanþágu.
Sjávarútvegur á valdsviði ESB
Spurður úr sal hvort það væri ekki rétt að hægt væri að breyta reglunni um hlutfallslegan stöðugleika hvenær sem væri með auknum meirihluta atkvæða í ráðherraráði Evrópusambandsins sagði Poulsen það vera rétt. Sagði hann regluna hins vegar hafa verið lengi við lýði og sátt væri um hana. En það væri vissulega rétt að hægt væri að breyta henni í ráðherraráðinu. Hann var einnig spurður að því hvort hann teldi að Evrópusambandið gæti hvenær sem er í krafti Lissabon-sáttmálans, grunnlöggjafar sambandsins, kosið að taka einhverjar ákvarðanir sem ríkjunum hefði áður verið heimilað að taka.
„Það er ljóst að sjávarútvegur er 100% á valdsviði Evrópusambandsins en það er einnig ljóst að framkvæmdastjórn sambandsins getur upp að vissu marki falið ríkjunum ákveðið ákvörðunarvald,“ sagði Poulsen. Þetta ætti til að mynda við þegar ríki gæti tekið ákvarðanir um heildarkvóta í ákveðnum stofni sem það hefði eitt hagsmuna að gæta gagnvart. „En Evrópusambandið hefur að sjálfsögðu valdið,“ sagði hann og bætti við að þær aðstæður gætu því vissulega komið upp, til dæmis í tilfelli náttúruhamfara, að sambandið tæki slíkt vald aftur í sínar hendur.