Fimm þingmenn stjórnarandstöðunnar lögðu í dag fram tillögu til þingsályktunar um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabanka, með það að markmiði að lágmarka áhættuna af resktri banka og áföllum í starfsemi þeirra fyrir þjóðarbúið.
Lagt er til að skipuð verði nefnd sem kanni hvort og þá með hvaða hætti megi framkvæma slíkan aðskilnað. Nefndin skoði stefnumótun nágrannaríkja í þessu sambandi og skili tillögum sínum fyrir 1. október 2013.
Flutningsmenn tillögunnar eru Árni Þór Sigurðsson, Helgi Hjörvar, Bjarkey Gunnarsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ögmundur Jónasson. Sambærileg tillaga var áður flutt á 140. þingi af Álfheiði Ingadóttur og fleiri þingmönnum en varð ekki útrædd og var síðan endurflutt á 141. þingi.
Í greinargerð með tillögunni nú segir að á síðasta þingi hafi komið fram góður stuðningur við málið og var það að lokum afgreitt úr nefnd með orðalagsbreytingu sem tekið hefur verið tillit til við endurflutning málsins.
Þar segir jafnframt að þjóðir beggja vegna Atlantshafsins séu að fikra sig í átt að aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingabanka og sérfræðingar, þar á meðal bankamenn, mæli með honum.
Flutningsmenn telja brýnt að Alþingi taki afstöðu til málsins sem fyrst. Ekki megi dragast lengur að breyta lagaumhverfi fjármálafyrirtækja hér á landi og aðskilja áhættusama fjárfestingarstarfsemi og hefðbundna bankastarfsemi, annað hvort algerlega í ótengdum fyrirtækjum eða með skýrum aðskilnaði innan hvers fjármálafyrirtækis.
Mikilvægast er að mati flutningsmanna að innstæður venjulegra viðskiptamanna bankanna séu tryggðar og að þær séu forgangskröfur í bú þeirra ef þeir verða gjaldþrota.