Andlát: Helgi Már Arthursson

Helgi Már Arthursson.
Helgi Már Arthursson.

Helgi Már Arthursson, fyrrverandi blaða- og fréttamaður, er látinn, 62 ára að aldri.

Hann fæddist á Ísafirði 19. febrúar árið 1951, þar sem hann ólst upp. Hann var sonur Arthurs Gestssonar sem er látinn og Önnu Maríu Helgadóttur sem lifir son sinn.

Helgi Már lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1971 og nam sálar- og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla frá 1971-1978.

Hann var kennari við Menntaskólann á Ísafirði 1978-1980. Hann starfaði lengi sem blaðamaður og síðar fréttamaður. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu og Nýju landi 1980 og 1981 og sá um útgáfu-, fræðslu- og upplýsingamál fyrir BSRB 1982-1986. Þá var hann blaðamaður og ritstjóri á Helgarpóstinum til 1988.

Helgi Már var eftir það fréttamaður á Stöð 2 og síðar í Sjónvarpinu, þar sem hann var meðal annars þingfréttamaður um árabil.

Hann hvarf til starfa í heilbrigðisráðuneytinu árið 1998 og var upplýsingafulltrúi þar til ársloka 2010 þegar velferðarráðuneytið var stofnað.

Helgi Már lætur eftir sig eiginkonu, Sigríði Árnadóttur, fyrrverandi fréttamann og núverandi saksóknarfulltrúa. Þau eignuðust tvö börn en auk þeirra átti Helgi Már þrjár dætur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert