Ferðast um langan veg til að fæða

Landlæknir skilgreinir níu staði á Íslandi sem fæðingastaði.
Landlæknir skilgreinir níu staði á Íslandi sem fæðingastaði. Jim Smart

Frá árinu 1972 hefur fæðingastöðum á Íslandi fækkað úr 25 í níu. Þótt ljósmóðir sé til staðar á Sauðárkróki er heilbrigðisstofnunin þar ekki skilgreindur fæðingarstaður skv. Landlækni og ber heilbrigðisstarfsfólki að senda konu, sem er byrjuð í fæðingu, á Sjúkrahúsið á Akureyri (FSA). Vegalengdin á milli staðanna tveggja er 120 km. Kona á Þórshöfn þarf að leggja á sig 250 km ferðalag til að komast á FSA.

Athygli vakti á miðvikudaginn þegar kona fæddi barn í sjúkrabíl í Öxnadal á leið til Akureyrar. Álfhildur Leifsdóttir, sem þarna átti sitt þriðja barn, sagði að það væri „ekki boðlegt fyrir konur verandi í miklum verkjum og hríðum að dröslast yfir heiði í bíl, hvort sem það er í einkabíl eða sjúkrabíl.“ Hún sagðist ekki óska neinni konu að ganga í gegnum þetta. „Aðstæður kvenna í þessum aðstæðum eiga að vera mun betri og öruggari en þetta.“

Anna María Oddsdóttir, ljósmóðir á Sauðárkróki, tekur undir að það sé engin óskastaða að kona fæði í sjúkrabíl í Öxnadal. „Auðvitað eru konur aldrei ánægðar með að þurfa að fara úr sinni heimabyggð og fæða annars staðar. Ég held að við sem vinnum hér á heilbrigðisstofnuninni séum að veita góða þjónustu og styðja konurnar í því ferli sem er framundan,“ segir hún. Það sé hennar mat að flestar verðandi mæður séu þó tiltölulega öruggar, þótt það trufli alltaf að vita af því að þær þurfi að fara til Akureyrar að fæða. „Það tekur sjarmann af þessu að vita að maður þarf að flytjast.“

Hagsmunir kvenna og ófædds barns skipta mestu máli

Anna María segir að það hafi ekki verið svo langt síðan fætt var á Sauðárkróki, Siglufirði og í fjölda minni bæja á landinu en nú sé markmiðið að hafa fæðingarnar á sem fæstum stöðum. „Það er margt sem réttlætir þessa þróun líka en oft  gleymist það sem skiptir mestu máli; hagsmunir kvennanna og ófædds barns. Það er heldur ekkert grín að keyra á 150-160 km hraða á sjúkrabíl. Það er líka hættulegt og getur ýmislegt gerst þar.“

Læknar eru til staðar á heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki en þar eru ekki skurðstofur, skurðlæknir eða ljósmóðir á sólarhringsvöktum. Anna María vinnur á dagvinnutíma og er á bakvakt til kl. 20 á  kvöldin. Eitt sinn voru í bænum tvær ljósmæður sem unnu á vöktum en nú er engin starfandi ljósmóðir á nóttunni og um helgar. Hún sinnir því aðallega mæðra- og ungbarnaeftirliti auk þess að fara í heimaþjónustu. Konur sem sæki það fast geti þó fengið að fæða á Sauðárkróki, en Anna María þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig og alls ekki alltaf sem það er hægt. Hún hefur tekið á móti börnum í heimafæðingum en þá hefur ljósmóðir frá Akureyri verið kölluð til aðstoðar, því best þykir að hafa tvær ljósmæður viðstaddar.

„Okkur ber að flytja konur inn á Akureyri og við stýrum öllum konum þangað en auðvitað sjáum við um fæðingar þar sem allt gengur mjög hratt fyrir sig,“ segir Anna María. Í mæðraverndinni sé það metið hvort konur flokkist undir áhættufæðingu og í þeim tilvikum sé yfirleitt búið að senda konur til Akureyrar eða Reykjavíkur áður en fæðing fer í gang. „Það er alltaf sorglegt að flytja konu sem er að fæða fimmta eða sjötta barn, og allt virðist ganga vel fyrir sig, á Akureyri.“

Það náttúrulegasta sem til er

Áslaug Hauksdóttir, ljósmóðir í Reykjavík, segir margar ljósmæður vera uggandi yfir fækkun fæðingastaða á landinu. Það skapi mikið óöryggi fyrir verðandi mæður og feður auk þess sem það geti reynst dýrt fyrir fjölskyldur séu konur sendar til Reykjavíkur eða Akureyrar mörgum dögum fyrir fæðingu. „Mér líst ekki á þessa þróun. Það ætti að hafa ljósmóður á hverjum einasta stað og aðeins senda konur í áhættufæðingu á stærri stofnanir.“ Flestar fæðingar séu eðlilegar fæðingar en of mikið sé talað um það slæma sem geti komið upp á. Það sé aftur á móti mjög sjaldgæft þegar konur séu hraustar og heilbrigðar. „Þetta er það náttúrulegasta sem er til í heiminum.“

Áslaug hefur einnig áhyggjur af því að ljósmæður hafi lítinn áhuga á að vinna í smærri bæjum á landsbyggðinni ef þær sjái ekki fram á að fá að taka á móti börnum heldur einungis sinna eftirliti og heimaþjónustu. „Mér finnst þetta alveg hrikaleg þróun.“ Áslaug sinnti lengi vel heimafæðingum en þær voru rúmlega 2% allra fæðinga í fyrra. Fjöldinn hefur margfaldast á nokkrum árum. Hún segir að yfir 80% kvenna gætu fætt á öðrum stöðum en á hátæknisjúkrahúsi en um 73% allra fæðinga fara fram á Landspítalanum. Það sé dýrasti staðurinn til að eignast barn. „Ef það þarf að spara í heilbrigðiskerfinu þá ætti að efla heimafæðingar. Í Hollandi eru t.d. yfir 35% fæðinga heimafæðingar og tölfræðin er mjög góð varðandi útkomu fæðinga og heilbrigði barnanna.“

Verður að reyna að fara bil beggja

Ragnheiður I. Bjarnadóttir, fæðingarlæknir og yfirlæknir Fæðingaskrár, segir að málið sé ekki einfalt. „Að vissu leyti er erfitt að halda uppi góðri og öruggri þjónustu á stað þar sem eru mjög fáar fæðingar en á hinn bóginn getur það verið hættulegt þegar konur þurfa að fara um langan veg til að komast á fæðingastað. Það verður að reyna að fara bil beggja og ég held það sé mjög æskilegt að hafa ljósmæður á þessum minni stöðum sem geta tekið á móti börnum hjá konum í eðlilegri fæðingu.“ Ragnheiður telur að fækkun fæðingastaðanna sé ekki liður í sparnaðaraðgerðum, heldur sé verið að hugsa um öryggi kvenna. Það hafi verið álitið best að sem flestar konur fæði á stærri stöðum þar sem boðið sé upp á meiri þjónustu.

Séu konur í áhættu þurfi að velja fæðingastað út frá áhættuþáttunum. „En það er óæskilegt að þurfa að flytja heilbrigða konu, sem er komin langt í fæðingu, um langan veg. Mér finnst að það þurfi að vera ljósmæður á  helstu byggðastöðum til þess að það sé hægt að taka á móti börnum ef kona fer af stað í fæðingu og allt lítur vel út. Það verður að vera einhvers konar lágmarksþjónusta. Þetta hlýtur að vera erfið ákvörðun um að flytja konu sem er komin langt í fæðingu því ef fæðingin gengur eðlilega hlýtur að vera betra að taka á móti barninu.“

Anna María Oddsdóttir ljósmóðir með barninu em fæddist á Öxnadalsheiði.
Anna María Oddsdóttir ljósmóðir með barninu em fæddist á Öxnadalsheiði.
Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert