Ferðaþjónustufyrirtæki fór með hóp ferðamanna um hálendisveg inn í Öskju í dag og hefur auglýst aðra slíka ferð þann 17. júní samkvæmt heimildum mbl.is. Öskjuleið er hins vegar enn lokuð og munu heimamenn uggandi yfir þeim áhrifum sem keyrsla um veginn kann að hafa.
Þessar upplýsingar fengust staðfestar hjá Mývatnsstofu, sem kvað fyrirtækið sem um ræðir heita Geo Travel. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki í forsvarsmenn fyrirtækisins, en samkvæmt heimasíðu þess er það lítið fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var af landvörðum sem starfað höfðu fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og Umhverfisstofnun á Mývatni.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Vegagerðarinnar opnar Öskjuleið að Herðubreiðarlindum í fyrsta lagi 14. júní en að jafnaði 26. júní ár hvert. Öskjuleið frá Herðubreiðarlindum og að Dreka opnar í fyrsta lagi 15. júní en að jafnaði 22. júní ár hvert.
Fulltrúi lögreglunnar á Húsavík staðfesti að lögreglunni hefði verið tilkynnt um ferðir Geo Travel en gat ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu.