Vill refsiaðgerðir gegn Íslandi án tafar

„Grípa verður til refsiaðgerða gegn Færeyjum og Íslandi án tafar. Ef haldið verður áfram á málum með sama hætti verður engin þörf fyrir frekari fundarhöld þar sem það verður enginn fiskur eftir!“

Þetta er haft eftir Evrópuþingmanninum Pat Gallagher á vefsíðu írska stjórnmálaflokksins Fianna Fáil vegna makríldeilunnar. Ummælin féllu í umræðu á Evrópuþinginu þar sem þingmaðurinn gagnrýndi sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, Mariu Damanaki, harðlega fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða gegn Færeyingum og Íslendingum þrátt fyrir að samþykkt hefði verið löggjöf á vettvangi sambandsins síðastliðið haust sem gerði henni það kleift. Sakaði hann Damanaki um að hunsa vilja Evrópuþingsins og ráðherraráðsins með því að grípa ekki til refsiaðgerða sem væri óásættanlegt.

Gallagher kallaði eftir því að fyrirhugaðar refsiaðgerðir gegn Færeyingum vegna einhliða kvótaákvörðunar um norsk-íslenska síldarstofninn, sem aðallega eiga að snúast um bann við útflutningi á makríl og afurðum úr honum til ríkja Evrópusambandsins, næðu einnig til makríls þar sem hann væri meðafli með síldinni. Þá ættu aðgerðirnar að sama skapi að beinast að eldislaxi þar sem hann væri fóðraður með fiskimjöli sem unnið væri bæði úr síld og makríl.

Fram kemur í umfjölluninni að Damanaki hafi svarað þingmanninum á þá leið að hún ætti í samræðum við nýja ríkisstjórn Íslands og að gripið yrði til viðeigandi ráðstafana ef íslensk stjórnvöld reyndust ekki reiðubúin að taka með uppbyggilegum hætti þátt í því að finna lausn á makríldeilunni.

Umfjöllunin á vefsíðu Fianna Fáil

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert