Leit hætt við Hjaltadalsá

Eins og sést á þessari mynd er mikið vatn í …
Eins og sést á þessari mynd er mikið vatn í Hjaltadalsá mbl.is/Björn Jóhann Björnsson

Maðurinn sem féll í Hjaltadalsá á þriðjudaginn í síðustu viku er enn ófundinn og hefur leit að honum verið hætt að svo stöddu. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hefur ekki verið tekin ákvörðun um framhald leitarinnar.

Talið er að maðurinn, sem var á minkaveiðum við annan mann, hafi fallið í ána um hádegisbil á þriðjudaginn. Leit hófst um einum og hálfum tíma síðar þar sem ferðafélagi hans var ekki með síma á sér og ók til Sauðárkróks til að gera viðvart um slysið.

Tugir björgunarsveitamanna hafa tekið þátt í leitinni jafnt á nóttu sem degi alla vikuna, en án árangurs. Leitað hefur verið alla vikuna, bæði meðfram ánni og á bátum í ánni auk þess sem leitað var úr lofti á þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þá voru gerðar tilraunir með reköld í ánni í von um að finna út hvert straumar væru líklegir til að bera manninn.

Hjaltadalsá hefur verið í vexti og vatnið mórautt að lit sem gerði aðstæður til leitar erfiðar. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg verður leit líklega haldið áfram þegar sjatnar í ánni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert