Vinnubrögð Vegagerðarinnar „óásættanleg“

Frá ferð Geo Travel. Konan á hundasleðanum er bundin við …
Frá ferð Geo Travel. Konan á hundasleðanum er bundin við hjólastól og var því flutt svona síðustu 2,4 kílómetrana, en Sæmundur telur það vera í fyrsta sinn sem slíkt sé gert. Sæmundur Þór Sigurðsson

Sæmundur Þór Sigurðsson, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Geo Travel, sem fór í gær um lokaðan veg í Öskju með hóp ferðamanna, gagnrýnir vinnubrögð Vegagerðarinnar á svæðinu harðlega.

Í fréttatilkynningu frá Geo Travel er staðfest að fyrirtækið hafi keyrt í Öskju í gær. Ástand vega hafi ekki komið þeim á óvart enda hafi þau fylgst vel með snjóalögum á svæðinu og þróun þeirra. Vegurinn hafi verið vel fær fjallajeppum inn í Herðubreiðarlindir en suður fyrir Herðubreiðartögl hafi verið litlir skaflar í vegstæðinu sem hafi stækkað eftir því sem ofar dró.

Síðustu sex kílómetrarnir að bílaplani við Vikraborgir hafi verið þaktir snjó. Sæmundur Þór segir að ákveðið hafi verið að fara í ferðina eftir skoðun Vegagerðarinnar miðað við veðurspá og játar því að þegar ákvörðunin hafi verið tekin hafi legið fyrir að vegurinn yrði lokaður. „Hann er alltaf lokaður þar til hann er opnaður alveg og miðað við snjóalög núna þá verður það bara mjög seint.“

Segjast ekki hafa valdið skemmdum

Þá segir í fréttatilkynningunni að ljóst sé að vegurinn frá Herðubreiðartöglum upp á Öskjuplan sé mikið skemmdur þar sem vikurinn rennur úr veginum með leysingavatni, en ferð Geo Travel er ekki sögð hafa valdið skemmdum á veginum. „Vatnið rennur hvort eð er eftir veginum, þetta er niðurgrafinn vegur í vikri sem er mjög laust efni þannig að það veldur ekki skemmdum,“ segir Sæmundur Þór.

Gunnar Bóasson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Húsavík, segir þetta leysingavatn vera ástæðu lokunarinnar. „Leysingavatnið rennur í hjólförunum sem myndast þegar maður keyrir á svona mjúkum jarðvegi. Við lýstum því fyrir ferðaþjónustufyrirtækjum á samráðsfundi sem haldinn var í fyrra að við teldum að ef menn færu að keyra á þessum vegum þá ykist hættan á úrrennsli og þar af leiðandi þyrfti meiri viðgerðir.“

Vildu merkja vegina ófæra

Umræddir samráðsfundir voru haldnir milli Vegagerðarinnar, þjóðgarðsins, ferðafélaga og ferðaskipuleggjenda á svæðinu bæði í fyrra og hittifyrra. Þar óskuðu ferðaþjónustufyrirtæki eftir því að hálendisvegir yrðu merktir ófærir þegar hægt væri að keyra á þurrum vegum að snjólínu og þaðan á vel breyttum jeppum að bílaplani að Vikraborgum.

Í fréttatilkynningunni segir að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra óska. „Það er komið fordæmi fyrir því á Kjalvegi að hafa veginn ekki lokaðan heldur merktan ófæran. Það myndi líka koma í veg fyrir að almenningur myndi fara af stað á vanbúnum bílum,“ segir Sæmundur Þór.

Telur Vegagerðina ekki fara að lögum

„Sitt sýnist hverjum. Ferðafélögin vilja ekki umferð um svæðið fyrr en þau hafi opnað sína skála en það er háð því að hægt sé að koma vatni á skálana. Það er erfitt snemmsumars eins og t.d. í Drekagili þar sem er beinlínis hættulegt að fara og tengja vatnslagnir,“ segir Sæmundur Þór.

„Vegagerðin hefur látið þessi sjónarmið ráða en ekki horft á ástand vegarins sjálfs eins og þeim ber samkvæmt lögum. Það eru ákveðnar reglur um lokun vega; það þarf að vera hætta á skemmdum á veginum eða hættulegt að ferðast um svæðið. Mér finnst þetta mjög sterk aðgerð að hafa alla umferð bannaða þegar ekki er hætta á skemmdum.“

Gunnar segir opnun skála ekki ráða opnun vega þótt menn hafi reynt að láta það fylgjast að. „Þarna er náttúrlega alls engin þjónusta, ekki klósett eða neitt sem þörf er á í svona löngum ferðum.“

Spurður um rök Vegagerðarinnar um aukna hættu á úrrennsli segist Sæmundur Þór ekki kannast við þá útskýringu. „Ég hef aldrei heyrt þetta sjónarmið áður frá þeim [...] en þetta eru óverulegar skemmdir sem geta komið af okkar völdum.“

Vegirnir ekki skoðaðir aftur fyrr en 24. júní

Sæmundur Þór gagnrýnir að Vegagerðin hafi ekki í hyggju að skoða vegina aftur fyrr en 24. júní. „Það er óásættanlegt,“ segir í fréttatilkynningu. Gunnar segir það vera mat sérfræðinga að ástæðulaust sé að skoða vegina fyrr vegna bleytu. „Þetta er ofboðslegur snjór þarna upp frá og þarf því ekki að fara daglega til að skoða því menn sjá það nokkurn veginn fyrirfram hvernig bráðnunin verður,“ segir Gunnar.

Upplýstu ferðamennina um lokunina

Í fréttatilkynningu Geo Travel segir að ferðamennirnir, fjölskylda frá Belgíu, hafi verið upplýstir um að vegurinn væri lokaður og hópurinn gæti þurft að snúa við ef ekki væri fært eða hætta á að valda skemmdum. Aðspurður hvort hópurinn hafi gert sér grein fyrir því að þeir væru þ.a.l. ekki tryggðir fyrir slysum segir Sæmundur: „Já, ég býst nú við því, við gerðum þeim grein fyrir því að vegurinn væri lokaður og ekki víst að við kæmumst alla leið.“

Fara hugsanlega aftur á morgun

Lögreglan á Húsavík hafði afskipti af ferðum Geo Travel í gær. „Við ætlum að hitta þá á eftir og ræða við þá um okkar mál,“ segir Sæmundur. Hann telur ekki ólíklegt að fyrirtækið muni fá sekt fyrir atferlið. „Ég ætla að ræða við þá og vonandi fæ ég þá með mér í að skoða aðstæður.“ Hann segir fund við lögregluna í dag munu ráða því hvort verði af annarri auglýstri ferð Geo Travel í Öskju á morgun, en staðfesti að fyrirtækið hefði beðið Mývatnsstofu að hætta að bóka fólk í ferðina um sinn. 

Frétt mbl.is: Sagðir hunsa lokanir á viðkvæmum vegum

Frétt mbl.is: Ótryggðir á lokuðum vegum við Öskju

Frá ferð Geo Travel. Ekið var á snjó frá Dreka …
Frá ferð Geo Travel. Ekið var á snjó frá Dreka að bílaplani við Vigraborgir, um sex kílómetra leið. Sæmundur Þór Sigurðsson
Frá ferð Geo Travel. Um 10 kílómetra frá Dreka, Dyngjufjöllin …
Frá ferð Geo Travel. Um 10 kílómetra frá Dreka, Dyngjufjöllin blasa við. Snjór liggur í vegstæðinu í sköflunum. Sæmundur Þór Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert